Yfir hundrað hús eyðilagst í flóðinu

Mikil fátækt ríkir í Afganistan og er þjóðin viðkvæm fyrir …
Mikil fátækt ríkir í Afganistan og er þjóðin viðkvæm fyrir náttúruhamförum. AFP

Að minnsta kosti sex manns hafa látið lífið í miklu flóði í Ghor-héraði Afganistan og yfir hundrað hús eyðilagst.

Abdul Wahid Hamas, talsmaður héraðsstjóra í Ghor-héraði, sagði eitt barn og þrjár konur hafa farist í gær þegar hús þeirra í bænum Firozkoh eyðilagðist. Í öðru hverfi í héraðinu hafi karl og kona borist með flóðinu og síðar fundist látin. 

Þá hafi yfir 100 hús og um 200 hektarar af ræktarlandi eyðilagst og enn sé verið að leita að fleirum sem hafi týnst í flóðunum.

„Við höfum ekki frekari upplýsingar um fjárhagslegt tap í bili,“ segir Hamas.

Viðkvæm fyrir veðurvá

Í Ghor-héraði hafa verið langvarandi þurrkar undanfarin ár.

Í Afganistan ríkir gríðarmikil fátækt og samkvæmt World Food Program eiga níu af hverjum tíu afgönskum fjölskyldum ekki efni á nægum mat.

Hafa hjálparstofnanir sagt þjóðina vera mjög viðkvæma fyrir áhrifum veðurvár af völdum loftslagsbreytinga.

Frá því að Talíbanar komust aftur til valda árið 2021 hefur alþjóðlegt hjálparstarf í landinu farið hnignandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert