Fyrstu sigrar Þýskalands og Spánar

Felix Uduokhai skorar sigurmark Þjóðverja.
Felix Uduokhai skorar sigurmark Þjóðverja. AFP

Þýskaland þurfti heldur betur að hafa fyrir fyrsta sigri liðsins í fótbolta í karlaflokki á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag. Þýska liðið hafði þá betur gegn Sádi-Arabíu, 3:2.

Nadiem Amiri kom Þýskalandi yfir á 12. mínútu en Sami Al-Najei jafnaði á 30. mínútu. Ragnar Ache kom Þjóðverjum aftur yfir á 43. mínútu en Al-Najei skoraði sitt annað mark og annað mark Sádi-Arabíu á 50. mínútu.

Verkefnið varð erfiðara fyrir Þýskaland á 67. mínútu er Amos Pieper fékk beint rautt spjald. Þrátt fyrir það skoraði Felix Uduokhai sigurmark þýska liðsins á 75. mínútu.

Spánn vann 1:0-sigur á Ástralíu. Mikel Oyarzabal, sem lék með Spáni á EM í sumar, skoraði sigurmarkið.

Þá eru heimamenn í Japan komnir áfram í átta liða úrslit eftir 2:1-sigur á Mexíkó. Loks vann Suður-Kórea öruggan 4:0-sigur á Rúmeníu.

Spánverjar fagna sigurmarkinu.
Spánverjar fagna sigurmarkinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert