Sveindís skoraði sigurmark Kristianstad

Sveindís Jane Jónsdóttir var hetja Kristianstad í dag.
Sveindís Jane Jónsdóttir var hetja Kristianstad í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði sigurmark Íslendingaliðs Kristianstad þegar það vann Linköping með minnsta mun, 1:0, í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna í dag.

Mark Sveindísar kom snemma í síðari hálfleik, á 51. mínútu.

Hún lék allan leikinn á vinstri vængnum og þá lék Sif Atladóttir sömuleiðis allan leikinn í hjarta varnarinnar.

Bandaríkjakonan D.B. Pridham, sem lék stærstan hluta tímabilsins með ÍBV í sumar, lék fyrstu 87 mínúturnar í fremstu víglínu Kristianstad. Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar sem kunnugt er liðið.

Annar leikur, Íslendingaslagur, fór fram á sama tíma í deildinni þegar meistaraefnin í Rosengård höfðu betur, 2:1, á útivelli gegn Hammarby.

Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í vörn Rosengård og Berglind Björg Þorvaldsdóttir lék fyrstu 88 mínúturnar í fremstu víglínu Hammarby.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert