Framsókn með ítarlega fyrirvara við þjóðgarðinn

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Hari

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, gerði grein fyrir ítarlegum fyrirvörum þingflokks Framsóknar við frumvarp um Hálendisþjóðgarð á facebook-síðu sinni í dag.

Þar segir hann útfærslu og tímalínu úrslitaratriði um hvernig til tekst auk faglegs undirbúnings. 

Hann segir alla þurfa að vera með, „ekki síst það fólk sem um áraraðir hefur haft umsjón með hálendinu og sinnt því af trúmennsku og á faglegan hátt“. 

Þjóðgarðurinn stækki í samræmi við stuðning

Hugmynd þingflokks Framsóknar að stærðarmörkum er að þrátt fyrir samþykki Alþingis þurfi samþykki viðeigandi sveitarstjórnar. „Þannig getur þjóðgarðurinn stækkað eftir því sem aukinn stuðningur er við hugmyndina. (Þannig mætti byrja má á að stækka Vatnajökulsþjóðgarð með Hofsjökli og aðliggjandi friðlýstum svæðum),“ segir Sigurður Ingi í færslunni.

Framsókn telur einnig að skilgreina þurfi jaðarsvæði upp á nýtt svo áhrifasvæði þjóðgarðsins nái ekki út í ytri mörk hans. Þjóðgarðurinn skal ekki hafa áhrif á nýtingaráform utan hans.

Valdasvið umdæmisráða skýrt

„Þingflokkurinn leggur áherslu á að valdsvið umdæmisráða verði skýrt nánar og sérstaklega þegar skarast ákvarðanir einstakra sveitarstjórna (aðalskipulag) og stjórnar Þjóðgarðsins og ráðherra.“ Þá vill þingflokkurinn tryggja sveitarfélögum óskorðaðar valdheimildir yfir eigin mannvirkjum og öðrum eignum innan garðsins. 

Svæðisskipulag sveitarfélaga skal vera grundvöllur stjórnunar- og verndar/nýtingaráætlana.

Skýrari sýn um fjármögnun og nytjar

„Nauðsynlegt er að vinna raunhæfa tillögu með tímalínu að fjármögnun garðsins. [...] Einnig skiptir máli hversu miklu fjármagni menn sjá að hægt sé að verja til uppbyggingar garðsins, t.d. á næstu 5 árum,“ heldur upptalning formannsins áfram. 

Þess er einnig krafist að núverandi réttur til nytja verði tryggður og nytjaréttahafar geti starfað með óbreyttum hætti.

Nauðsynlegt að byggja upp vegi

Framsókn telur nauðsynlegt að viðurkenna og setja í lagatexta að byggja þurfi upp vegi á svæðinu sem fellur undir þjóðgarðinn. Tryggja þurfi frjálsa för almannaréttar.

Þá vill þingflokkurinn að orkukostir verði skoðaði óháð því hvort að þeir séu innan þjóðgarðs eða ekki.

„Tryggja verður að leggja megi raflínur og eða jarðstrengi innan marka þjóðgarðsins til að tengja nýjar virkjanir og til endurnýjunar, viðhalds og styrkingar flutningskerfisins til framtíðar,“ segir enn fremur í færslunni.

Færsluna í heild sinni má lesa hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert