Þurftum sárlega á þessu að halda

Kristinn Freyr var góður í dag.
Kristinn Freyr var góður í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Kristinn Freyr Sigurðsson, leikmaður FH, var kátur þegar blaðamaður mbl.is talaði við hann eftir 2:0 sigur á ÍBV í Bestu deild karla í knattspyrnu í Hafnarfirði fyrr í dag. Kristinn átti góðan leik og lagði upp annað mark FH. 

„Fyrst og fremst það sem gekk upp hjá okkur í dag var að við héldum hreinu, ef við gerum það þá erum við alltaf líklegir til að skora. Þetta eru stig sem okkur vantaði til að koma okkur almennilega í gang. Það var frábært að skora tvö mörk og halda hreinu, þetta er þriðji leikurinn á stuttum tíma þannig við þurftum sárlega á sigri að halda.“

Blaðamanni mbl fannst flæðið í sóknaleik FH vera mun betra í dag heldur en í síðustu leikjum, FH skapaði sér mikið af góðum færum og mörg af þeim í gegnum flott spil leikmanna. Aðspurður út í hvort liðið gerði einhverjar áherslubreytingar fyrir leik hafði Kristinn þetta að segja: 

„Nei nei, svosem engar áherslubreytingar þannig séð, við voru með aðeins öðruvísi kerfi en ekki mikil munur í raun og veru. Fótboltinn er bara þannig að stundum ganga hlutirnir upp og stundum ekki og það gekk ágætlega hjá okkur í dag.“

FH sækir Keflavík heim í næsta leik sínum. 

„Það leggst mjög vel í okkur, tækifæri til að ná í þrjú stig þar. Keflavík er með gott lið og við verðum heldur betur að mæta tilbúnir í þann leik,“ sagði Kristinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert