Albert áfram á skotskónum

Albert Guðmundsson og Benjamin Pavard í skallabaráttu í leik Genoa …
Albert Guðmundsson og Benjamin Pavard í skallabaráttu í leik Genoa og Inter í síðasta mánuði. AFP/Gabriel Bouys

Albert Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, skoraði mark Genoa þegar liðið gerði jafntefli við Fiorentina, 1:1, í ítölsku A-deildinni í Flórens í kvöld.

Bæði lið sigla lygnan sjó um miðja deild. Fiorentina er í 10. sæti með 44 stig og Genoa er í 12. sæti með 39 stig.

Albert kom Genoa yfir með marki úr vítaspyrnu skömmu fyrir leikhlé. Hann skoraði þá af miklu öryggi þegar hann sendi Pietro Terracciano í rangt horn.

Snemma í síðari hálfleik jafnaði Jonathan Ikoné metin fyrir Fiorentina og þar við sat.

Albert hefur nú skorað 13 mörk í 30 deildarleikjum fyrir Genoa á tímabilinu og er þriðji markahæsti leikmaður A-deildarinnar ásamt Victor Osimhen hjá Napoli og Oliver Giroud hjá AC Milan. Fyrir ofan þá eru Lautaro Martínez hjá Inter Mílanó með 23 mörk og Dusan Vlahovic hjá Juventus með 15 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert