Föst á blindu stefnumóti eftir útgöngubann

Íbúar í Zhengzhou í biðröð eftir því að komast í …
Íbúar í Zhengzhou í biðröð eftir því að komast í skimun við kórónuveirunni fyrir viku síðan. AFP

Getið þið ímyndað ykkur að vera á fyrsta stefnumóti sem tekur engan enda? Það er nákvæmlega það sem kom fyrir kínverska konu. Blogg hennar um að hafa lent í útgöngubanni á miðju blindu stefnumóti hafa farið eins og eldur í sinu um netheima.

Yfir 100 kórónuveirusmit hafa greinst í kínversku borginni Zhengzhou frá því í síðustu viku og reyna stjórnvöld hvað þau geta til að hafa hemil á útbreiðslu veirunnar.

Útgöngubann var sett á í ákveðnum hverfum í borginni án fyrirvara, einmitt þegar konan, sem heitir Wang, var að snæða kvöldverð í húsi mannsins sem hún fór á stefnumótið með.

„Skömmu eftir að ég kom til Zhengzhou greindust smit og það var sett á útgöngubann í hverfinu hans og ég gat hvergi farið,“ sagði Wang í viðtali við The Paper og bætti við að hún hafi ætlað að dvelja í viku í borginni til að hitta mögulega vonbiðla sína.

Myndskeiðin hafa notið mikilla vinsælda á Weibo.
Myndskeiðin hafa notið mikilla vinsælda á Weibo. AFP

„Ég er að verða gömul og fjölskylda mín sagði mér frá tíu sem pössuðu við mig...Sá sem ég hitti á fimmta stefnumótinu vildi sýna mér hæfileika sína í eldhúsinu og bauð mér að koma heim til sín í kvöldmat.“

Síðan þá hefur Wang birt stutt myndskeið þar sem hún segir frá daglegu lífi sínu í einangruninni. Meðal annars sést maðurinn elda fyrir hana mat, sinna húsverkunum og vinna í fartölvunni sinni á meðan hún sefur út.

Ástin ekki enn kviknað

Enn sem komið er virðist ástin ekki hvaða kviknað á þessu endalausa blinda stefnumóti, að sögn Wang, sem kveðst hafa meiri áhuga á einhverjum sem talar meira.

„Þrátt fyrir að hann sé mállaus eins og viðarbrúða er allt annað (við hann) frekar gott,“ sagði Wang við The Paper. „Þrátt fyrir að maturinn hans sé í meðallagi, þá vill hann samt elda, sem mér finnst frábært.“

Í morgun höfðu myndskeiðin hennar verið skoðuð yfir sex milljón sinnum á samfélagsmiðlinum Weibo, sem svipar til Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert