Innlent

Búa sig undir langhlaup í skólunum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Skólastjórnendur búa sig undir að áhrifa kórónuveirufaraldursins gæti á skólastarf allt skólaárið. Ástandið hefur reynt bæði á börnin og starfsfólkið.

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft töluverð áhrif á skólastarf. Nú eru hátt í níu hundruð leik- og grunnskólabörn í Reykjavík í sóttkví og foreldrar um fjögur hundruð barna til viðbótar halda börnum sínum heima. 

Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla, segir líkt og í fleiri skólum hafi verið gripið til ýmissa ráðstafana til að lágmarka hættu á smit og koma í veg fyrir að börn þurfi að fara í sóttkví.

„Við þurfum að skipta niður í svæði og höfum þurft að fella niður til dæmis sundkennsluna í ákveðinn tíma og við erum svona að leysa mál með það fyrir augum að forðast blöndun eins mikið og mögulegt er,“ segir Magnús Þór.

Grímuskylda er hjá starfsmönnum á ákveðnum svæðum í skólanum og nemendum á unglingastigi stendur til boða að nota grímur sem um helmingur hefur gert. Magnús segir ljóst að faraldurinn geti haft veruleg áhrif á skólastarf í allan vetur. 

„Við áttum okkur á því núna að þetta er ekki eins mikill sprettur og við náðum að taka með vorinu og með sólina í kringum okkur. Nú erum við auðvitað að horfa framan í lengra ástand og við höfum verið að gera áætlanir sem miða við að jafnvel allt skólaárið verði svona.“

Hann segir ástandið hafa áhrif á líðan allra í skólanum en hann sé stoltur af sínu fólki og börnunum. 

„Fólk er enn þá að taka þetta hlutverk alvarlega að vera þessi svona vin í þessari eyðimörk sem COVID er en ég ætla ekkert að skrökva því að við finnum það þetta er þungt á köflum bæði hjá börnum og fullorðnu fólki. Það breytir því ekki að við ætlum að taka verkefnið og skila því.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×