„Leggur meiri áherslu á sóknarleik, sem er geggjað“

Alexandra Jóhannsdóttir og Elín Metta Jensen fagna marki gegn Lettlandi …
Alexandra Jóhannsdóttir og Elín Metta Jensen fagna marki gegn Lettlandi síðastliðið haust. Eggert Jóhannesson

Alexöndru Jóhannsdóttur, miðjumanni íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og Eintracht Frankfurt í Þýskalandi, líst vel á nýjan þjálfara liðsins, Þorstein Halldórsson, enda þekkjast þau vel frá tíma þeirra hjá Breiðabliki.

„Hann er að koma með sínar áherslur á liðið, svona Breiðabliksáherslur, þannig að þær eru ekki nýjar fyrir mér en þær eru nýjar fyrir einhvern. Hann er að leggja meiri áherslu á sóknarleik, sem er bara geggjað. Þannig að þetta eru engar svakalegar breytingar, þetta er bara fótbolti, sko,“ sagði Alexandra á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag.

Henni líst sömuleiðis ansi vel á nýliðana í hópnum, þar á meðal þær Karitas Tómasdóttur, miðjumann Breiðabliks, sem er nýkomin frá Selfossi, og Hafrúnu Rakel, miðjumann Breiðabliks.

„Bara ótrúlega vel. Ég spilaði á móti Karitas og hún er geggjuð. Hún er algjör baráttuhundur og þvílík vél. Svo er Hafrún ótrúlega góð. Hún spilaði vel síðasta sumar og mér finnst þær verðskulda að vera hérna.“

Í fjarveru Söru Bjarkar Gunnarsdóttur fyrirliða sagðist Alexandra ekki finna til aukinnar ábyrgðar. „Nei, nei, það stíga bara allar stelpurnar upp. Það kemur maður í manns stað.“

Alexandra hefur verið að glíma við smávægileg meiðsli undanfarið. „Ég fékk aðeins tak framan í læri fyrir tveimur vikum. Þeir vildu ekki taka neina sénsa úti og ég missti af 2-3 leikjum. En ég er í toppstandi núna og tilbúin í allt,“ sagði hún.

Gott að hitta íslensku stelpurnar

Aðspurð hvernig dvölin hafi verið hingað til í Frankfurt sagði Alexandra hana búna að vera nokkuð erfiða vegna útgöngubanns. „Þetta er búið að taka svolítið á andlega. Það getur enginn komið út til mín og allt er lokað hérna. Maður fer á æfingar og svo heim að slaka á.

En ég er að komast betur inn í hlutina og hef bætt mig í tækniatriðum sem hafa verið minn veikleiki. Vonandi næ ég að vinna mig inn í liðið á næstunni,“ sagði hún.

Því sagði Alexandra vináttuleikina gegn Ítalíu á næstu dögum vera kærkomna. „Ég er búin að hlakka til þess að koma í þetta verkefni. Það er gott að hitta íslensku stelpurnar og geta talað íslensku. Maður er kominn í svolítinn þægindaramma sem er gott.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert