Morgan Stanley Capital International (MSCI), eitt stærsta vísitölufyrirtæki heims, skoðar hvort Ísland sé gjaldgengt í íslam-vísitölur fyrirtækisins en ákvörðun verður tekin í ágúst á þessu ári, samhliða reglubundinni endurskoðun á vísitölum MSCI.

Í íslam-vísitölunum eru fyrirtæki sem henta fjárfestingastefnu Sharia-laga. Fjárfestingarstefnan heimilar ekki fjárfestingar í fyrirtækjum sem starfa með beinum hætti í, eða skapa meira en 5% af tekjum sínum með viðskiptum með áfengi, tóbak, svínakjöts-tengdum vörum, hefðbundinni fjármálaþjónustu, varnar- og vopnaiðnaði, fjárhættuspilum eða kynlífstengdum vörum og þjónustu.

Sjá einnig: Gæðastimpill fyrir íslenska markaðinn

Þannig má ljóst vera að Arion banki muni ekki uppfylla skilyrði Sharia-laganna, auk þess sem ólíklegt verður að teljast að Marel uppylli þau, vegna framleiðslu tengdri svínakjötsiðnaðinum.

Gjaldgengi í tvær vísitölur staðfest

Í júní í fyrra, á sama tíma og MSCI tók ákvörðun um að færa Íslandsvísitölu fyrirtækisins úr flokki stakra markaða yfir í flokk vaxtarmarkaða (Frontier Markets), var tilkynnt um fyrirhugaða athugun á gjaldgengi Íslands í vísitölurnar Frontier Markets 100 og Frontier Markets 15% Country Capped.

Sjá einnig: Íslenski markaðurinn í vísitölu MSCI

MSCI staðfesti gjaldgengi Íslands í vísitölurnar í febrúar síðastliðnum og verða 11 fyrirtæki Íslandsvísitölunnar tekin formlega inn í vísitölurnar við opnun markaða þann 28. maí næstkomandi, á sama tíma og Ísland færist formlega í flokk vaxtarmarkaða.