„Mér fannst þetta ódýrt“

Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, sagði fyrsta markið hafa skipt miklu máli í leik Breiðabliks og Vals í Pepsí Max deild karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld. 

Leikurinn var þýðingarmikill en Breiðablik komst með sigri aftur á toppinn og gerði auk þess út um vonir Valsmann um að verja titilinn. 

„Blikarnir voru góðir í þessum leik. Þeir létu boltann ganga vel á milli manna og blönduðu saman stuttu spili og löngum sendingum. Vandræði okkar í leiknum voru þau að okkur tókst ekki að halda boltanum nógu vel innan liðsins. Okkur tókst ekki að tengja nógu margar sendingar saman og náðum ekki að komast í þau svæði sem við vildum komast í. Við áttum okkar möguleika í stöðunni 0:0. Við fengum ágætis færi í byrjun seinni hálfleiks en nýttum þau ekki. Ég hef ekki séð þetta víti aftur en ég held nú að það hafi verið frekar ódýrt,“ sagði Heimir en fyrsta mark Breiðabliks kom úr vítaspyrnu á 61. mínútu sem Gísli Eyjólfsson fékk en Guðmundur Andri Tryggvason braut á honum. Telur Heimir að Gísli hafi verið fyrir utan vítateig þegar atvikið átti sér stað? „Ég á eftir að sjá þetta aftur. Mér fannst þetta ódýrt frá mínu sjónarhorni.“

Var fyrsta markið vendipunktur í leiknum? „Já það var vendipunktur í leiknum. Þessi leikur var ekkert mjög opinn og manni fannst að liðinu sem tækist að skora á undan myndi fara langt með að vinna þennan leik,“ sagði Heimir Guðjónsson þegar mbl.is spjallaði við hann á Kópavogsvelli í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert