Japanirnir hans Dags settu skrekk í Svía

Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Japana fylgist með sínum mönnum í leiknum …
Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Japana fylgist með sínum mönnum í leiknum í dag. AFP

Japanska karlalandsliðið í handknattleik, undir stjórn Dags Sigurðssonar, veitti silfurliði síðasta heimsmeistaramóts, Svíum, harða keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Eftir sautján marka skell gegn heimsmeisturum Dana í fyrstu umferðinni reiknuðu flestir með því að Japanir yrðu Svíunum auðveld bráð. Svíar voru yfir í hálfleik, 17:14, og virtust stefna í öruggan sigur þegar þeir komust í 21:15 snemma í seinni hálfleiknum. Staðan var síðan 25:19 um hann miðjan.

Þá tóku Japanir hins vegar mikinn sprett og minnkuðu muninn í eitt mark, 27:26, þegar þrjár og hálf mínúta var til leiksloka. Eftir mikinn barning á lokamínútunum skoraði Hampus Wanne fyrir Svía þegar 27 sekúndur voru eftir og lokatölur urðu 28:26. 

Hampus Wanne, sem skoraði 13 mörk í fyrsta leik Svía, gegn Barein, var aftur markahæstur og nú með 8 mörk. Jim Gottfridsson kom næstur með fjögur. Svíar hafa heldur betur sloppið fyrir horn því þeir unnu Barein 32:31 í fyrsta leik þar sem Andrreas Palicka, markvörður þeirra, varði vítakast þegar leiktímanum var lokið.

Hiroki Motoki skoraði 6 mörk fyrir Japani og einn þeirra sem komu næstir með 3 mörk var Kenya Kasahara sem hefur samið við Harðarmenn á Ísafirði um að leika með þeim í 1. deildinni næsta vetur.

Eftir tvær umferðir í B-riðli eru þá Danir og Svíar með 4 stig, Egyptar og Portúgalar með 2 stig en Bareinar og Japanir eru án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert