Fer til Breiðabliks eftir tímabilið

Pétur Theodór Árnason í leik með Gróttu á tímabilinu.
Pétur Theodór Árnason í leik með Gróttu á tímabilinu. mbl.is/Árni Sæberg

Sóknarmaðurinn Pétur Theodór Árnason, markahæsti leikmaður 1. deildarinnar í knattspyrnu, Lengjudeildarinnar, mun ganga til liðs við Breiðablik frá Gróttu að loknu yfirstandandi tímabili.

Þetta er fullyrt á Twitter-aðgangi Dr. Football-hlaðvarpsins.

Þar segir að Pétur Theodór sé þegar búinn að skrifa undir í Kópavoginum en að hann klári tímabilið með Gróttu.

Pétur Theodór er búinn að skora 13 mörk í 12 deildarleikjum fyrir Gróttu á tímabilinu þar sem liðið siglir lygnan sjó um miðja deild með 17 stig í 6. sætinu.

Hjá Breiðabliki mun hann hitta fyrir Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfara, en hann þjálfaði Gróttu um tveggja ára skeið og kom liðinu upp um tvær deildir á þeim tíma.

Pétur Theodór raðaði þá inn mörkum fyrir Gróttu í 2. og 1. deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert