Tveir farvegir hafa myndast

Tveir farvegir hafa myndast fyrir hraunið.
Tveir farvegir hafa myndast fyrir hraunið. Skjáskot af vef RÚV

Tveir farvegir hafa myndast fyrir hraunið sem rennur frá gígnum fyrir ofan Meradali.

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segist ekki vita hvenær seinni farvegurinn myndaðist. Hann bætir við að betra sé að átta sig á hraunfarveginum þegar rökkva tekur á gossvæðinu.

Ekki hafa myndast fleiri gossprungur en þær tvær sem mynduðust í gær. Jarðsig mældist tæpum hálfum kílómetra norðaustan við gígana í Geldingadölum. Sú lægð í landinu hefur ekki opnast en fylgst verður áfram með svæðinu í nótt, að sögn Einars.

Tvær nýjar sprungur mynduðust í gær.
Tvær nýjar sprungur mynduðust í gær. mbl.is/Ólafur Þórisson

Gas fyrst í átt að Reykjanesbæ

Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að í nótt snúist í suðaustan- og austanátt á svæðinu og að í nótt og í fyrramálið gæti gas blásið í átt að Reykjanesbæ og Vogum á Vatnsleysuströnd.

Í fyrramálið ætti að snúast meira í háaustanátt og þá er líklegt að gasið fari meira yfir óbyggt svæði í fjalllendi. Annað kvöld er spáð norðaustanátt og þá gæti gasið blásið yfir Grindavík.

Birgir Örn segir að gaslíkan Veðurstofunnar sýni ekki mikla mengun á nærliggjandi svæðum en það eigi eftir að koma betur í ljós síðar í kvöld.

Hraunið sem rennur úr nýju sprungunum.
Hraunið sem rennur úr nýju sprungunum. Ljósmynd/Almannavarnir

Snjókoma í fyrramálið 

Opnað verður fyrir umferð um gosstöðvarnar í fyrramálið. Þá er spáð snjókomu og heldur hún áfram með köflum eftir hádegi. Einhver strekkingur gæti orðið á svæðinu og því er um að gera að vera vel búinn, segir Birgir Örn.

Fylgst með eldgosinu í Geldingadölum.
Fylgst með eldgosinu í Geldingadölum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óverulegt hraunrennsli í Geldingadölum

Eftir hádegi í dag voru teknar loftmyndir úr flugvél Garðaflugs með Hasselblad-myndavél Náttúrufræðistofnunar og unnin eftir þeim landlíkön af hraununum í Geldingadölum og Meradölum.

Niðurstöðurnar benda til þess að hraunrennsli sé nú óverulegt í Geldingadölum en rennsli frá nýju sprungunni er 4-5 rúmmetrar á sekúndu. 

Samanlagt rennsli á báðum stöðum er metið 5-6 rúmmetrar á sekúndu.  Aukningin sem fram kom í gær er því að mestu gengin til baka og hraunrennsli svipað og var dagana áður en nýja sprungan opnaðist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert