Íbúar tóku þátt í slökkvistarfinu

Þökk sé snarræði íbúa og annarra sem komu að fór …
Þökk sé snarræði íbúa og annarra sem komu að fór betur en á horfðist í Sandgerði. Ljósmynd/Gísli Reynisson

Brunavarnir Suðurnesja sinntu tveimur útköllum í gær sökum sinuelda. Annars vegar var tilkynnt um sinueld á Ásbrú og hins vegar nærri Sandgerði. Aðstoðarvarðstjóri Brunavarna Suðurnesja segir þetta vera einmitt sá tími árs sem að sina er mikil og hvetur fólk til að huga að nærumhverfi sínu.

„Þetta eru kjöraðstæður eins og er núna. Allt skraufþurrt og mikil sina, þannig það þarf ekki mikið til að það kvikni í,“ segir Rúnar Eyberg Árnason, aðstoðarvarðstjóri Brunavarna Suðurnesja.

Rúnar segir að hátt í fjögur þúsund fermetra flekkur hafi brunnið eftir sinueldinn á Ásbrú, en að greiðlega hafi gengið að slökkva eldinn þrátt fyrir hraða útbreiðslu. Að sögn Rúnars var lítil hætta á að eldurinn breiddist út til byggðar.

Snarræði íbúa 

Síðar um daginn kviknaði í sinu fyrir aftan Samkomuhúsið í Sandgerði. Rúnar segir að eldurinn hafi náð að lóðarmörkum og að hátt í 2.500 fermetra flekkur hafi brunnið áður en tókst að slökkva eldinn.

Hann segir að þökk sé snarræði íbúa og annarra sem komu að hafi farið betur en á horfðist. Fólk tók höndum saman til að varna útbreiðslu eldsins áður en Brunavarnir Suðurnesja höfðu tök á því að mæta á svæðið: „Það var töluverður reykur sem lagðist yfir byggðina en það tókst greiðlega að slökkva þetta.“ 

Slökkviliðsmaður að störfum í Sandgerði.
Slökkviliðsmaður að störfum í Sandgerði. Ljósmynd/Gísli Reynisson

Rúnar telur að möguleiki sé á reykskemmdum í nærliggjandi húsum eftir brunann en að eftir eigi að kanna það.  

Hann kveðst lítið geta sagt til um hvort um íkveikju eða óviljaverk hafi verið að ræða í ofangreindum tilfellum: „Það þarf oft ekki mikið til, til þess að kveikja í sinu.“

Rúnar hvetur fólk til þess að huga að nærumumhverfi sínu: „Það er mjög gott að allir sem eru með opið svæði aftan við húsnæðið sitt gefi því gaum og hugsi um nærumumhverfið á þessum tíma árs.“

Rúnar telur að möguleiki sé á reykskemmdum í nærliggjandi húsum …
Rúnar telur að möguleiki sé á reykskemmdum í nærliggjandi húsum eftir brunann en að eftir eigi að kanna það. Ljósmynd/Gísli Reynisson
Rúnar segir að eldurinn hafi náð að lóðarmörkum og að …
Rúnar segir að eldurinn hafi náð að lóðarmörkum og að hátt í 2.500 fermetra flekkur hafi brunnið áður en tókst að slökkva eldinn. Ljósmynd/Gísli Reynisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert