Launakrafa fjármálastjóra WOW nýtur forgangs

Bæði héraðsdómur og Landsréttur telja að launakrafa Stefáns Eysteins Sigurðssonar, …
Bæði héraðsdómur og Landsréttur telja að launakrafa Stefáns Eysteins Sigurðssonar, fyrrverandi fjármálastjóra WOW air, eigi að njóta forgangs, líkt og um aðrar launakröfur í búið. mbl.is/Hari

Rúmlega 14 milljóna launakrafa fyrrverandi fjármálastjóra WOW air nýtur forgangs við gjaldþrotaskipti félagsins, líkt og gildir um aðrar launakröfur í þrotabúið. Þetta er niðurstaða bæði héraðsdóms og Landsréttar í máli fjármálastjórans gegn þrotabúinu, en það hafði áður hafnað forgangskröfu hans með vísan til þess að hann hafði í ljósi stöðu sinnar haft upplýsingar um bága fjárhagsstöðu félagsins og flokkast sem nákomnir við daglegan rekstur félagsins.

Bæði héraðsdómur og Landsréttur komust að þeirri niðurstöðu að valdheimildir og starf fjármálastjórans Stefáns Eysteins Sigurðssonar hefðu ekki falið í sér ákvarðanatöku, heldur að sjá til þess að fyrir hendi væru verkferlar innan fyrirtækisins til að framfylgja þeim ákvörðunum sem hefðu verið teknar þannig að þær skiluðu sér m.a. inn í bókhald og rekstraruppgjör félagsins.

Hafði takmarkaðar heimildir til að skuldbinda WOW air

Fjármálastjórinn benti meðal annars á fyrir dómi að heimildir hans til að skuldbinda félagið hefðu verið 500 þúsund dalir, en á sama tíma hafi rekstrartekjur félagsins verið um 618 milljónir dala, eða 77 milljarðar króna. Sagði hann daglegan rekstur félagsins hafa verið í höndum forstjóra og aðstoðarforstjóra, auk þess sem flugrekstur beri það með sér að allur reksturinn gangi út á flugáætlun sem leggi grunn að tekju- og kostnaðarhlið rekstursins. Þær ákvarðanir hafi verið teknar í rekstrardeild í nánu samstarfi við forstjóra og samþykktar af stjórn, en fjármálastjórinn hafi ekki komið beint að þeirri ákvarðanatöku.

Þá vísaði hann til þess að aðrir framkvæmdastjórar hefðu fengið launakröfur sínar flokkaðar sem forgangskröfur.

Uppsagnarfresturinn tvöfaldaður þremur mánuðum fyrir gjaldþrot

Annar skiptastjóri búsins, Þorsteinn Einarsson, sem jafnframt flutti málið fyrir dómstólum, benti hins vegar á að fjármálastjóri hefði heyrt beint undir forstjóra og verið einn af æðstu stjórnendum félagsins. Hafi hann sem slíkur sinnt daglegum rekstri, fjármálum og áætlunargerð. Hafi hann sem slíkur haft bestu yfirsýn yfir fjárhagsstöðu félagsins og jafnframt tekið ákvarðanir um fjárhagsmálefni. Þá hafi hann haft prókúruumboð.

Einnig var bent á að þremur mánuðum fyrir fall WOW air hafi ráðningasamningi fjármálastjórans verið breytt og uppsagnarfrestur hans tvöfaldaður, upp í tólf mánuði. Fjármálastjórinn féll frá þeim hluta kröfunnar við aðalmeðferð málsins fyrir héraði, en forgangskrafa hans upp á 2,4 milljóna laun í sex mánuði var samþykkt bæði í héraði og Landsrétti.

Lét greiða 100 milljónir til félags Skúla stuttu fyrir gjaldþrot

Þá er einnig vísað til þess að fjármálastjórinn hafi 6. febrúar, fyrirskipað gjaldkera WOW air að greiða Títan fjárfestingarfélagi, sem var í eigu Skúla Mogensen, forstjóra félagsins, að greiða yfir 100 milljónir, löngu fyrir gjalddaga kröfunnar. Taldi skiptastjórinn að á þessum tíma hafi fjármálastjóranum átt að vera kunnugt um að félagið stefndi í gjaldþrot.

Segir í dómi Landsréttar að þrátt fyrir starfstitil þurfi að meta hverjar raunverulegar valdheimildir stjórnenda hafi verið til að sjá hvort þeir flokkist sem nákomnir í skilningi laga. Verði að líta til þess hvaða stjórnunarheimildir hann hafði og hvort hann hafi haft vald til að hafa áhrif á ákvarðanir sem teknar voru. Með hliðsjón af því staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóms um að fjármálastjórinn hafi ekki haft þær vald- og stjórnunarheimildir til að flokkast sem nákominn.

Rúv hefur eftir Þorsteini að hann sé ósáttur með dóminn og muni óska eftir leyfi hjá Hæstarétti til að áfrýja málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka