„Slík hegðun sé undir engum kringumstæðum liðin“

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV.
Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Leikmenn kvennaliðs Fram í handknattleik hafa í sameiningu sent frá sér stuðningsyfirlýsingu til handa þolendum kynbundins áreitis og ofbeldis, þar sem viðbragðsleysi handboltahreyfingarinnar vegna slíkra mála er gagnrýnt.

Tilefni yfirlýsingarinnar er tveggja leikja bann sem Sigurður Bragason, þjálfari kvennaliðs ÍBV, var úrskurðaður í af aga- og úrskurðarnefnd HSÍ vegna „mjög grófrar ódrengilegrar hegðunar hans eftir leik ÍBV og Vals í Olísdeildinni.

Sigurður var sakaður um að hafa slegið á aft­ur­enda starfs­manns Vals að leikn­um lokn­um.

Leikmaður Vals hafi séð það og skammað Sig­urð fyr­ir. Þá hafi hann brugðist ókvæða við og viðhaft orðin „fokkaðu þér“, sem hann beindi til leikmannsins.

Vonirnar raungerast ekki

Mbl.is hefur fengið það staðfest að leikmenn Fram séu ósáttir við að refsing Sigurðar fyrir hegðun sína sé einungis tveggja leikja bann.

„Að gefnu tilefni viljum við senda frá okkur stuðningsyfirlýsingu til þolenda kynbundinnar áreitni og ofbeldis. Við viljum einnig fordæma viðbragðsleysi hreyfingarinnar við ósæmilegri hegðun og brotum gegn liðskonum og starfsfólki.

Það voru miklar væntingar meðal íþróttakvenna í kjölfar #metoo, að hreyfingin myndi uppræta allt áreiti og ofbeldi sem alltof margar íþróttakonur og starfsfólk hafa þurft að búa við alla tíð. Því miður er reynslan að sýna okkur að þær vonir raungerast ekki.

Við skorum á önnur lið að lýsa yfir stuðningi við þolendur alls kynbundins áreitis og ofbeldis og krefjast þess að brugðist verði við hverju broti og þannig send skilaboð til allra sem koma að iðkun íþróttarinnar að slík hegðun sé undir engum kringumstæðum liðin,“ sagði í yfirlýsingu leikmanna Fram, sem birtist á sameiginlegum Instagram-aðgangi þeirra.

Fram er ríkjandi Íslandsmeistari í handknattleik kvenna.
Fram er ríkjandi Íslandsmeistari í handknattleik kvenna. mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert