Leifar fellibylsins Epsilons nálgast landið

Hvessa mun vegna leifanna, ef spár standast.
Hvessa mun vegna leifanna, ef spár standast. mbl.is/Golli

Í kvöld nálgast leifar fellibylsins Epsilons landið suður úr höfum og þá hvessir úr austri syðst á landinu. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings. 

Fyrrverandi fellibylurinn hefur sameinast annarri lægð sem nú eru af svipuðum styrk og vetrarlægð á norðanverðu Atlantshafinu. Nýja lægðin staldrar dálítið við, eitthvað út vikuna. Má búast við að hvasst verði með suðurströndinni, allt að 18-23 m/s undir Eyjafjöllum og austur í Öræfum, frá og með í nótt og jafnvel fram á föstudag,“ segir í hugleiðingunum.

Þar eru ferðalangar á þessum svæðum beðnir að fylgjast með veðurspám og viðvörunum. Ísland sleppur við mestalla úrkomuna úr lægðinni sem er talsverð á djúpunum suður og suðvestur af landinu.

Fremur hæg austlæg eða norðaustlæg átt verður annars í dag, en allt að 10 m/s norðvestan til. Skýjað með köflum og þurrt að kalla en lítilsháttar él eða slydduél á Norðausturlandi.

Á morgun verður austlæg átt 8-15 m/s, hvassast norðvestan til. Lítilsháttar él um norðaustanvert landið, en bjart veður vestan til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert