Vel mætt í próf hjúkrunarfræðinema

Eirberg.
Eirberg. mbl.is/Ófeigur

Staðpróf í lyfjaútreikningum hjá nemendum á fjórða ári í hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands fór fram í morgun. 

Að sögn Herdísar Sveinsdóttur, deildarforseta hjúkrunarfræðideildar, mættu allir nemendur og gekk allt vel fyrir sig. Prófið var um hálftíma langt og snerist m.a. um að reikna út lyfjaskammta fyrir lítil börn, sem er gífurlega mikilvægt í starfi, segir Herdís.

Nemendur, sem margir hverjir eru í starfsnámi á Landspítalanum þar sem neyðarástand ríkir vegna kórónuveirunnar, kvörtuðu yfir því að prófið skyldi haldið. Það gerðu Landssamtök íslenskra stúdenta einnig.

Í samtali við mbl.is segist Herdís gera sér grein fyrir því að nemendur hafi verið stressaðir vegna stöðunnar sem er uppi en mjög vel hafi verið staðið að öllum sóttvörnum og nemendum skipt upp í hólf. Hún segist hafa fylgt þeim sem höfðu bestu forsendurnar til að taka ákvörðun í málinu, eða sóttvarnalækni, sóttvarnanefnd Landspítalans og neyðarstjórn Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert