Kynferðisbroti vísað frá eftir dóm Landsréttar

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur komst í dag að þeirri niðurstöðu að vísa frá héraðsdómi máli þar sem karlmaður hafði áður verið dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraðsdómi fyrir kynferðisbrot gegn vinkonu sinni í skólaferðalagi árið 2015. Var vísað til þess að saksóknari hefði áður ákveðið að falla frá saksókn með því að maðurinn myndi gangast við brotum sínum og væri ákærunni þar með frestað skilorðsbundið, líkt og lög heimila þegar um er að ræða brot unglinga á aldrinum 15 til 21 árs.

Stúlkan og móðir hennar kærðu málið árið 2016 og var ákæra gefin út þar sem maðurinn var borinn þeim sökum að hafa nauðgað konunni í gistiskála þegar þau voru saman í skólaferðalagi. Var hann ákærður fyrir að hafa káfað innan­k­læða á brjóst­um, rassi og kyn­fær­um konunnar þar sem hún lá sof­andi.

Maðurinn hafði áður játað brot sín gagnvart konunni og vini sínum. Við meðferð málsins hjá héraðssaksóknara var honum boðið að mæta á skrifstofu saksóknara til að ljúka málinu með skilorðsbundinni ákærufrestun, en með því þarf hann í raun að halda skilorð svo ekki verði gefin út ákæra. Mætti hann ekki til saksóknara til að klára málið, en skjal um ákærufrestunina var engu að síður undirritað af saksóknara.

Síðar fór héraðssaksóknari með málið fyrir dóm og var maðurinn sem fyrr segir dæmdur í tveggja ára fangelsi og til að greiða konunni 1,5 milljónir í skaðabætur.

Í dómi Landsréttar segir að þó að maðurinn hafi verið boðaður á fund hjá saksóknara þar sem kynna átti honum þýðingu ákærufrestunar,skilyrði hennar og afleiðingar skilorðsrofa, auk þess að gert hafi verið ráð fyrir að hann myndi undirrita skjalið, þá sé ekkert í lögum sem kalli á að sakborningur þurfi að gangast undir þau málalok, heldur sé um einhliða ákvörðun saksóknara og að aðeins þurfi að gæta þess að fyrir liggi játning sakbornings.

Það hafi átt við í þessu máli, enda hafi hann játað brot sín í skýrslutöku og sé því fullnægt skilyrðum um ákærufrestun. Hafi sú ákvörðun verið birt honum með bréfi og standi sú ákvörðun að mati Landsréttar. Er málinu því vísað frá héraðsdómi og fellur þar með refsing hans sem þar var dæm niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka