Fótbolti

AC Milan hafi á­huga á Alberti: Fetar hann í fót­spor lang­afa?

Aron Guðmundsson skrifar
Albert Guðmundsson hefur slegið rækilega í gegn hjá Genoa
Albert Guðmundsson hefur slegið rækilega í gegn hjá Genoa Vísir/Getty

For­ráða­menn ítalska stór­liðsins AC Milan fylgjast grannt með stöðu mála hjá ís­lenska lands­liðs­manninum Alberti.

Ítalski miðillinn Sempre Milan greinir frá því að for­ráða­menn AC Milan hafi auga­stað á Alberti sem hefur slegið í gegn frá komu sinni til Genoa árið 2022.

Albert er marka­hæsti leik­maður Genoa, sem tryggði sér sæti í ítölsku úr­vals­deildinni á næsta tíma­bili, á yfir­standandi tíma­bili með fjór­tán mörk. Þá hefur hann gefið fimm stoð­sendingar.

For­ráða­menn AC Milan telja liðið þurfa að styrkja sig á köntunum fyrir næsta tíma­bil og fylgist fé­lagið grannt með stöðu mála hjá Alberti sem kom til Genóa frá AZ Alk­maar fyrir rúma eina milljón evra á sínum tíma.

Nú er talið að AC Milan þurfi að reiða fram allt að tíu milljónum evra ætli fé­lagið sér að ganga frá kaupum á Ís­lendingnum knáa.

AC Milan komst alla leið í undan­úr­slit Meistara­deildar Evrópu á yfir­standandi tíma­bili en þar laut liðið í lægra haldi gegn ná­grönnum sínum í Inter Milan.

Þá er liðið sem stendur í fjórða sæti ítölsku úr­vals­deildarinnar með 64 stig þegar að tvær um­ferðir eru eftir af tíma­bilinu.

Fetar hann í fótspor langafa?

Albert Guð­munds­son, lang­afi og al­nafni Alberts, lék með AC Milan í efstu deild Ítalíu tíma­bilið 1948-49 og það tíma­bil skoraði hann tvö mörk í 14 leikjum.

Það er því spurning hvort að Albert muni feta í fót­spor lang­afa síns og spila með AC Milan í fram­tíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×