Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu 770,0 í ágúst 2021 og hækkar um 1,6% á milli mánaða. Síðastliðna 3 mánuði hækkaði vísitalan um 3,8%, síðastliðna 6 mánuði hækkaði hún um 11,8% og síðastliðna 12 mánuði hækkaði hún um 16,4%. Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár, en vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs.

Í fréttabréfi frá markaðsviðskiptum Arion banka segir að hækkunartakturinn haldi því áfram og mánaðarhækkun fjölbýlis og sérbýlis sé nokkuð nálægt meðaltalstikki undanfarinna 6 mánaða. Síðustu þrjá mánuði hafi fjölbýli hækkað um 3,0% en sérbýli um 6,9%. Þá veki athygli að fjölbýli hækki nú aftur milli mánaða eftir -0,1% lækkun í júlí.

Árstaktur húsnæðis hækki í 16,4% í ágúst en var 15,4% í júlí. Takturinn á sérbýli hækki í 20,4% í ágúst en var 18,9% í júlí en fjölbýli hækki í 15,0% úr 14,1%

Árstaktur húsnæðisverðs að raunvirði hækki í 12,7% í ágúst en hafi verið 11,7% í júlí. Það sé hæsti árstaktur frá janúar 2018

Loks segir í fréttabréfi bankans að áhugavert sé að skoða þróun raunverðs út frá byggingakostnaði og launum. Ef horft sé á húsnæðisverð í júlí megi segja að íbúðaverð hafi verið að hækka sem hlutfall af launavísitölu undanfarna 3-4 mánuði - nokkuð sem hafi verið frekar stöðugt undanfarin ár. Launavísitalan hafi þó ekki verið birt fyrir ágúst. Sem hlutfall af verðlagi eða byggingavísitölu sé hækkunin einnig orðin nokkuð snörp frá og með síðasta sumri.