MAST ætlar að taka mál Sveins upp við ráðuneytið

MAST ætlar að taka málið upp við ráðuneytið.
MAST ætlar að taka málið upp við ráðuneytið. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Matvælastofnun segist ætla að taka mál Sveins Margeirssonar, fyrrverandi forstjóra Matís, upp við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og skoða viðbrögð varðandi niðurstöðu Héraðsdóms Norðurlands vestra, sem sýknaði Svein í vikunni af ákæru um brot gegn lög­um um slátrun og sláturaf­urðir með því að hafa staðið að sölu og dreif­ingu á fersku lamba­kjöti af grip­um sem hafði verið slátrað utan lög­gilts slát­ur­húss. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.

Málið var upphaflega kært til lögreglu af fulltrúa MAST, en stofnunin taldi Svein hafa brotið lög þegar heimaslátrað lambakjöt var selt á bændamarkaði á Hofsósi, en lömbum hafði verið slátrað í samstarfi bænda á bænum Birkihlíð og Matís. Var það gert í samræmi við verklag sem Matís hafði lagt til að gilti um örsláturhús.

Hafði Matís skoðað mögu­leik­ann á slíkri slátrun í tengsl­um við verk­efni sem miða að því að koma land­búnaðar­vör­um frá fram­leiðend­um til neyt­enda með bein­um hætti, en slíkt geng­ur jafn­an und­ir nafn­inu beint frá býli.

MAST taldi slátrunina og söluna hins vegar ólöglega og að Matís hefði vísvitandi brotið lög með athæfinu, en sam­kvæmt lög­um verður slátrun að fara fram á viður­kenndu slát­ur­húsi. 

MAST segir í tilkynningunni að samkvæmt dóminum liggi fyrir að sláturdýrum, „sem slátra á í því skyni að dreifa afurðum á markaði skuli slátra í löggiltu sláturhúsi og óumdeilt er að aðstaðan þar sem tíu lömbum var slátrað var ekki löggilt sláturhús.” Þá taki ákvæði sem ákært var fyrir eingöngu til slátrunar gripa en ekki sölu og dreifingar, Vitnar stofnunin í dóm héraðsdóms: „Sú háttsemi að selja og dreifa afurðum af gripum sem slátrað var í sláturhúsi sem ekki hafði starfsleyfi eða samkvæmt núgildandi lögum, sláturhúsi sem ekki hefur löggildingu er, hvorki í lögum 96/1997 né í lögum nr. 93/1995 um matvæli lýst refsiverð.“

Segir MAST dóminn því hafa komist að því að skort hafi skilyrði refsiábyrgðar að háttsemi Sveins sé lýst refsinæmri í lögum og sé hann því sýknaður. Vegna þessa ætlar stofnunin að taka málið upp við ráðuneytið varðandi viðbrögð við niðurstöðu dómsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert