Brjóta upp útgerðina þversum og langsum

Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, boðar að flokkur hans muni efna til fjórða þorskastríðsins. Það verði gert með því að brjóta stór sjávarútvegsfyrirtæki upp „þversum og langsum“. Það sé nauðsynlegt enda skapist óheilbrigt ástand þegar fyrirtæki eigi alla virðiskeðjuna.

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Gunnar Smára í Dagmálum í dag.

„Þetta er alls staðar vandamál þar sem þetta gerðist. Því þegar þú átt alla virðiskeðjuna þá getur þú raunverulega ráðið því hvar hagnaðurinn er tekinn. Við þekkjum áralanga deilu útgerðarmanna og sjómanna um að verð hér sé of lágt og að menn séu að selja sjálfum sér á undirverði til þess að borga sjómönnum lægra, til að borga hafnarborgin lægra. Það eru mörg dæmi um að sambærilegur afli af norsku skipi og íslensku að norska skipið fær helmingi hærra verð,“ segir Gunnar.

Samherji drottnar yfir Norðurlandi

Hann segir t.d. að Samherji drottni yfir öllu samfélaginu á Norðurlandi. Það sé gott dæmi um með hvaða hætti þetta vandamál birtist og því sé nauðsynlegt að kljúfa fyrirtækið upp.

Þá er hann spurður út í það hvernig þetta birtist, þ.e. með hvaða hætti fyrirtækin drottna yfir samfélögunum. Hvernig drottna þau yfir samfélögunum. Nú séu sjómenn á vettvangi fyrirtækisins fremur vel settir þegar litið er til launakjara á vinnumarkaði almennt.

„Þeir sem eru þar inni en þú hefur ekki frelsi þar til að tala gegn Samherja. Þá missir þú vinnuna. Þá missir þú möguleikana á að vera sjómaður eftir það. Þetta hefur eituráhrif í samfélaginu, drottnunarstaða fyrirtækja á smáum stöðum. Þið vitið þetta alveg. Ef þið farið til Akureyrar og ef þið talið um Samherja á kaffihúsi þá lítur það yfir öxlina á sér. Þetta er ekki gott.“

WOW var skrælað að innan

Gunnar Smári vill einnig koma í veg fyrir að fyrirtæki leggi höfuðáherslu á að skila arðsemi. Það leiði til þess að þau verði skræluð að innan þar sem eigendur þeirra moki arði út úr þeim. Það veiki þau til muna og valdi að lokum að þau hrynji, rétt eins og hafi fengist staðfest í kórónuveirufaraldrinum.

Þegar Gunnar Smári er beðinn um að nefna dæmi um fyrirtæki sem svo sé komið fyrir nefnir hann WOW air til sögunnar. Það fyrirtæki féll í mars 2019, ári áður en kórónuveiran gerði vart við sig og aldrei var greiddur arður út úr því.

Hann vill þó meina að sömu sögu sé að segja um bankana og símafyrirtækin.

Viðtalið í heild sinni má nálgast í opnu streymi hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert