Rýmingu aflétt á Seyðisfirði

Skriðurnar sem féllu á Seyðisfirði í fyrra skildu eftir sig …
Skriðurnar sem féllu á Seyðisfirði í fyrra skildu eftir sig mikla eyðileggingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rýmingu á Seyðisfirði vegna hættu á skriðuföllum hefur verið aflétt. Þá hefur hættustig almannavarna verið afturkallað og lýsa almannavarnir yfir óvissustigi.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Hægt hefur á hreyfingu sem mælist á hryggnum milli skriðusársins frá desember 2020 og Búðarár. Mælingar og athuganir á vettvangi sýna að sprungur hafa opnast undanfarna daga og hryggurinn gliðnað. Þannig hafa líkur aukist á að hann brotni upp. Falli hann fram mun hann að líkindum fara í nokkrum stykkjum. Við því mætti búast í rigningartíð einhvern tíma á næstunni.

Útreikningar sem kynntir voru í gær sýna að allar líkur eru á að varnargarðar og safnþró leiði skriðuna til sjávar og án þess að valda tjóni á mannvirkjum, jafnvel þó hún fari öll í einu, segir í tilkynningunni.

Einnig segir að mælt sé með því að umferð um göngustíga meðfram Búðarár og annars staðar þar sem varnargarðar beina skriðustraumum verði áfram með aðgæslu.

Þá hefur fjöldahjálparstöðinni í Herðubreið verið lokað en minnt er á íbúafund í Herðubreið næstkomandi fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert