Selfoss vann eftir mikla spennu

Úr leik liðanna á Akureyri á síðasta tímabili.
Úr leik liðanna á Akureyri á síðasta tímabili. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Selfoss vann mikilvægan sigur á KA þegar liðin mættust á Selfossi í dag í Olísdeild karla í handbolta. Lokatölur urðu 25:24 eftir háspennu á lokamínútunni.

Þetta virtist ætla að verða auðveldur dagur á skrifstofunni fyrir Selfyssinga sem náðu góðu forskoti í upphafi leiks. Vörnin var lykillinn að gengi liðanna í dag því um leið og KA lagaði til í varnarleiknum komust þeir inn í leikinn og minnkuðu muninn í eitt mark á lokamínútum fyrri hálfleiks en staðan var 12:10 í leikhléi.

Þrátt fyrir stíf fundahöld í hálfleik virtist ræðan hjá Jónatani Magnússyni, þjálfara KA, hafa farið inn um annað eyrað hjá leikmönnum hans og út um hitt, því KA var ekki með á upphafsmínútum seinni hálfleiks. Þar náði Selfoss 6:1 áhlaupi þar sem Richard Sæþór Sigurðsson fór mikinn og staðan var allt í einu orðin 18:11.

Björninn var þó ekki unninn hjá þeim vínrauðu því eftir að KA tók leikhlé og stillti saman strengi sína fóru hlutirnir að gerast hjá norðanmönnum. Aftur var það vörnin sem var lykillinn, KA spilaði frábæra vörn í kjölfarið og smátt og smátt minnkaði forskot Selfoss. ÓIafur Gústafsson og Einar Rafn Eiðsson létu finna vel fyrir sér í vörninni og Selfyssingum gekk illa að stöðva Óðinn Þór Ríkharðsson, sem var markahæstur KA manna í dag.

KA jafnaði 21:21 þegar þrjár mínútur voru eftir og Selfyssingar voru komnir með bakið upp við vegg. Þá sýndi Guðmundur Hólmar Helgason leiðtogahæfni sína og reis upp þegar mest á reyndi. Hann skoraði tvö mikilvæg mörk og átti eina frábæra stoðsendingu á meðan félagar hans vörðust grimmilega. Það lék reyndar allt á reiðiskjálfi í Set-höllinni á lokamínútunum og þjálfarar beggja liða efuðust um ákvarðanir dómaranna. En, hver er sinnar gæfu smiður, og Selfyssingar tóku betri ákvarðanir á lokakaflanum og það skilaði sigri.

Leikurinn var mikilvægur liðunum sem voru fyrir hann á svipuðum slóðum á stigatöflunni. Selfyssingar lyftu sér með sigrinum upp í 7. sætið með 10 stig og skilja KA eftir í því tíunda með 6 stig.

Guðmundur Hólmar var markahæstur Selfyssinga með 7/3 mörk og Richard skoraði 6. Vilius Rasimas varði 14/1 skot í markinu. Hjá KA var Óðinn Þór markahæstur með 8/3 mörk og Nicholas Satchwell varði 15 skot í markinu og átti mjög góðan leik.

Selfoss 25:24 KA opna loka
60. mín. Selfoss tapar boltanum Richard missir boltann. KA spilar maður á mann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert