Grunur um smit í Auðarskóla í Búðardal

Búðardalur.
Búðardalur. mbl.is/Sigurður Bogi

Auðarskóla í Búðardal var lokað í dag eftir að upp kom grunur um að kórónuveirusmit hafi greinst innan skólans. 

Hraðpróf einstaklings við skólann sýndi jákvæða niðurstöðu, en verið er að bíða niðurstöðu PCR-prófs til þess að ganga fyllilega úr skugga um hvort um raunverulegt smit sé að ræða. 

Þetta staðfestir Herdís Erna Gunnarsdóttir, skólastjóri Auðarskóla, í samtali við mbl.is. 

Hún segir að þegar niðurstöður PCR-prófsins liggi fyrir, verði hægt að taka ákvarðanir um framhaldið.

PCR-próf eru marktækari en hraðpróf og mögulegt er að hraðprófið hafi sýnt falska jákvæða niðurstöðu.

Ákveðið hafi verið að loka Auðarskóla yfir daginn í dag, einungis til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu mögulegs smits. 

Auðarskóli er sameiginlegur skóli bæði fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri auk þess sem tónlistarskóli er þar starfræktur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert