Rak stjórnlaust og hafnaði í grjótgarði

„Þetta leit ekki vel út á tímabili.“
„Þetta leit ekki vel út á tímabili.“ Ljósmynd/Sigurbjörn Ágúst Ragnarsson Hjelm

Kallað var eftir aðstoð lögreglu og björgunarsveitar á Suðurnesjum á þriðja tímanum í dag þegar óhapp kom upp við tilraunir fiskibáts til að draga skútu út á haf, eftir að vél hennar bilaði við sjósetningu í grennd við Njarðvíkurhöfn.

Þegar fiskibáturinn fór af stað með skútuna í eftirdragi slitnaði taugin og flæktist í skrúfu bátsins, með þeim afleiðingum að báturinn drap á sér og hann rak stjórnlaust af stað. Skömmu síðar hafnaði hann í grjótgarðinum austan við slippinn í Njarðvík.

Veðrið var slæmt og það voru tveir menn um borð í hvorum bátnum, segir Haraldur Haraldsson formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes. Sterk norðaustanátt hefur verið á svæðinu í allan dag.

„Þetta leit ekki vel út á tímabili og hlýtur að hafa verið dálítið „scary““ segir hann í samtali við mbl.is. Hann segir mildi að ekki hafi farið verr. Engan sakaði.

Vonskuveður var um allt land í dag.
Vonskuveður var um allt land í dag. Ljósmynd/Sigurbjörn Ágúst Ragnarsson Hjelm

Siglt í fyrsta sinn í 38 ár

Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang tókst tiltölulega fljótt að ná stjórn á aðstæðum. Skútan var dregin af björgunarsveitinni inn í Njarðvíkurhöfn og fiskibáturinn var á sama hátt dreginn í land af hafnsögubátnum Lóðsanum.

Skútan sem verið var að sjósetja, Lóa, hefur verið í landi í 38 ár en var á leiðinni í fyrsta sinn í sjóinn núna.

Fleiri myndir af atburðarásinni má sjá inn á Facebook-síðunni Shipspotting Iceland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert