Endurskoða þjónustu við eldra fólk

Ólafur Þór Gunnarsson, öldrunarlæknir, kynnti helstu áherslur í aðgerðaráætluninni.
Ólafur Þór Gunnarsson, öldrunarlæknir, kynnti helstu áherslur í aðgerðaráætluninni. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Aðgerðaáætlun til fjögurra ára um heildarendurskoðun þjónustu við aldraða verður lögð fram sem þingsályktunartillaga á vorþingi 2023. 

Verkefnið ber yfirskriftina Gott að eldast. Fram kom á kynningarfundi í dag að farið yrði í þróunarverkefni um allt land næstu fjögur árin. Árið 2027 ættu að liggja fyrir niðurstöður af þróunarverkefnum frá fjórum svæðum að lágmarki.

Fyrstu þróunarverkefnin hefjast næsta haust og árið 2024 á innleiðing og framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar að fara fram.

Fimm þættir eru lagðir til grundvallar í þessari heildarendurskoðun: Samþætting, virkni, upplýsing, þróun og heimili.

Með samþættingu er meðal annars stefnt að sveigjanlegri og persónumiðaðri þjónustu. Í virkni er átt við alhliða heilsueflingu hjá eldra fólki. 

Með upplýsingu er talað um vitundarvakningu um heilbrigða öldrun, einmanaleika og öldrunarfordóma. Stuðla eigi að betri upplýsingum, bæði fyrir starfsfólk sem og sjúklinga með heilabilun og fjölskyldur þeirra.

Endurskoðun laga og bráðabirgðaákvæða vegna þróunarverkefna falla undir virkni í áætluninni. Stefnt er að því að búa til miðstöð velferðartæknilausna og notkunar hjálpartækja en hjálpartækjamiðstöð verði þróuð yfir í þetta.

Til stendur að skilgreina það opinberlega hvað felst í húsnæði fyrir eldra fólk. Farið verður í þróunarverkefni hjúkrunarrýma vegna fjármögnunarfyrirkomulags og greiðsluþátttöku.

Tveir ráðherrar fylgja verkefninu úr vör

Tveir ráðherrar voru á kynningarfundinum og ávörpuðu samkomuna, þ.e. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. Ætti það að vera vísbending um að nokkur pólitískur þungi sé að baki endurskoðuninni. 

Stefnt er að því að birta drög­in að aðgerðaáætl­un­inni til um­sagn­ar í sam­ráðsgátt stjórn­valda í des­em­ber. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fram kom hjá Guðmundi Inga Guðbrandssyni að vilji standi til þess að gera fólki kleift að búa lengur heima hjá sér. Verkefnið Gott að eldast eigi að fjölga möguleikum á aukinni virkni og bættri lýðheilsu. 

Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar kallar á aðlögunarhæfni samfélagsins að mati Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra. Fátt sé verðmætara samfélaginu en að viðhalda færni og virkni einstaklingsins. 

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Hallur Már
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert