Hefur ekkert til að biðjast afsökunar á

Brynja Dan Gunnarsdóttir segir móður sína í Sri Lanka ekki þurfa að biðjast afsökunar á neinu þegar kemur að ættleiðingu sinni til Íslands. Hún segir í Dagmálum frá augnablikinu þegar hún hitti móður sína í fyrsta skipti á fullorðinsaldri og tilfinningarússíbananum sem því fylgdi.

Brynju kynntust margir Íslendingar á skjánum þegar hún tók þátt í heimildarþáttunum Leitin að upprunanum. Brynja var ættleidd til íslenskrar fjölskyldu frá Sri Lanka tveggja mánaða gömul. 

Brynja er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum þar sem hún ræðir meðal annars ættleiðingar á Íslandi, eigin raun sem ættleitt barn og þá upplifun að finna blóðmóður sína og fjölskyldu í Sri Lanka. 

Öðruvísi meðgöngusaga 

Brynja segir að hún hafi alltaf verið meðvituð um sinn uppruna og vitað að hún myndi einn daginn leita að hinni fjölskyldunni sinni.

„Það gefur augaleið að ég lít ekkert út eins og foreldrar mínir þannig að það var kannski ekki hægt að fela það að ég væri ættleidd. Það hefur alltaf verið talað mjög opinskátt um það og það verið einhvern veginn eðlilegur partur af lífinu.

Ég á kannski bara aðeins öðruvísi meðgöngusögu; það er flugvélin og alls konar þannig í staðinn fyrir einhverjar bumbumyndir,“ segir Brynja.

Man ekki mikið eftir stóra augnablikinu

„Það var kannski pínu „milestone“, ef ég má sletta, í mínu lífi. Það er náttúrlega eitthvað sem maður er ósjálfrátt búinn að hugsa um og láta sig dreyma um í hátt í þrjátíu ár,“ segir Brynja.

Hún bætir við að hún muni í rauninni ekki mikið eftir að hafa upplifað augnablikið þegar hún hitti móður sína í Sri Lanka, en hafi horft á þættina og rifjað það upp. 

„Ótrúlega súrrealískt móment. Bara dásamlegt. Hún tekur okkur bara þarna, bæði mér og stráknum mínum, eins og við höfum alltaf verið partur af þeirra fjölskyldu og þeirra lífi,“ segir Brynja um endurfundina.

Brynja segir að móðir hennar hafi tekið son hennar í fangið og tekið utan um hana og beðið hana afsökunar. „Hún hefur ekkert til að biðjast afsökunar á. Ég er búin að eiga besta líf sem hægt er að hugsa sér. Þetta er móment sem ég mun varðveita að eilífu.“

Þætt­ir Dag­mála eru opn­ir áskrif­end­um Morg­un­blaðsins og má horfa á viðtalið við Brynju Dan Gunnarsdóttur í heild sinni hér. Kaupa má vikupassa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert