200 milljónir til aukinnar endurhæfingar

Bið í endurhæfingu hjá Reykjalundi getur numið heilu ári.
Bið í endurhæfingu hjá Reykjalundi getur numið heilu ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt að 200 milljónum króna verður varið til aukinnar endurhæfingar, meðal annars fyrir fólk sem glímir við eftirköst í kjölfar veikinda af völdum COVID-19 en einnig fyrir þá sem eru á biðlista eftir endurhæfingu af öðrum ástæðum. Talin er hætta á að eftirköst vegna COVID-19 geti valdið örorku en biðtími í endurhæfingu hjá Reykjalundi er allt að eins árs langur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur falið Sjúkratryggingum Íslands að semja um þessa auknu endurhæfingu. aukna endurhæfingu, meðal annars fyrir fólk sem glímir við eftirköst í kjölfar veikinda af völdum COVID-19 en einnig fyrir þá sem eru á biðlista eftir endurhæfingu af öðrum ástæðum. Allt að 200 milljónum króna verður varið til verkefnisins.

Endurhæfing á réttum tíma geti skipt sköpum

„Eftir að veirusjúkdómurinn COVID-19 barst til landsins hefur komið í ljós að ýmsir sem hafa veikst glíma við eftirköst af völdum sýkingarinnar á borð við verki, þreytu, þrekleysi og fleira og hafa sumir orðið óvinnufærir af þessum sökum“, segir í tilkynningunni. 

„Talin er hætta á því að eftirköstin geti orðið langvarandi og valdið örorku ef ekkert er að gert. Endurhæfing á réttum tíma í kjölfar veikinda í samræmi við þarfir viðkomandi einstaklinga getur skipt sköpum í þessu sambandi. Reykjalundur hefur tekið við fólki úr þessum hópi og 30 manns eru á biðlista hjá stofnuninni í þörf fyrir endurhæfingu eftir COVID-19 veikindi.“

Þarf að sinna endurhæfingu mun betur

Í tilkynningunni segir að fjöldi fólks bíði endurhæfingar af ýmsum ástæðum og hjá Reykjalundi sé biðtíminn frá fjórum vikum og allt að einu ári.

„Brýnt er að bregðast við mikilli þörf fyrir endurhæfingu með því að efla þennan þátt í heilbrigðiskerfinu og auka framboð þjónustunnar.“

Vinna við mótun endurhæfingastefnu hófst á liðnu ári. Hún fól m.a. í sér að kortlagningu endurhæfingarþjónustu í landinu, greiningu á styrk- og veikleikum í skipulagi þjónustunnar og í því að benda á leiðir til að bæta nýtingu þeirra endurhæfingarúrræða sem eru fyrir hendi. Í tilkynningu er haft eftir ráðherra að mikill styrkur sé fólginn í þeim tillögum að endurhæfingarstefnu sem nú liggja fyrir þegar teknar eru ákvarðanir um hvernig fjármunum skuli best varið til þessarar mikilvægu þjónustu:

„Endurhæfing skiptir í mörgum tilvikum sköpum um það hvernig fólki reiðir af í kjölfar slysa, veikinda eða annarra áfalla. Það þarf að sinna þessum mikilvæga þætti heilbrigðiskerfisins mun betur en gert hefur verið hingað til, meðal annars með því að skýra skipulag þessarar þjónustu, efla og samræma faglegt mat á þörf fólks fyrir endurhæfingu og stuðla þannig að skynsamlegri forgangsröðun í þágu sjúklinga og sem bestri nýtingu fjármuna“, er haft eftir Svandísi í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert