Dæmdur fyrir stórfelld brot í nánu sambandi

Héraðsdómur segir að við heildarmat á framferði mannsins beri að …
Héraðsdómur segir að við heildarmat á framferði mannsins beri að líta til þess að konan hafi bæði hjá lögreglu og fyrir dómi borið með trúverðugum hætti um að hann hafi gegnum árin oft tekið hana hálstaki, ýmist í reiðiham og/eða afbrýðisemisköstum og hann stundum brotið allt og bramlað á heimili þeirra. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í tveggja ára fangelsi fyrir brot í nánu sambandi, gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni og tveimur börnum þeirra. Hann var enn fremur sakfelldur fyrir líkamsárás gagnvart þriðja aðila og fyrir vörslu ýmissa steraefna. 

Var maðurinn einnig dæmdur til að greiða barnsmóður sinni 3,5 milljónir kr. í miskabætur og manninum sem hann réðist á samtals 250.000 kr. í bætur. Dómurinn féll á þriðjudag. 

Fyrri dómur ómerktur og málinu endurúthlutað

Málið var upphaflega þingfest í héraði 2. mars 2021. Með úrskurði héraðsdóms 26. mars, sem staðfestur var með úrskurði Landsréttar 31. mars, var ákæruliðum A.IX. og A.XI. vísað frá dómi, sem og kröfu ákæruvaldsins um upptöku á tveimur farsímum. Málið var dæmt í héraði 17. september 2021 og þeim dómi áfrýjað til Landsréttar 22. september sama ár. Með úrskurði Landsréttar 10. febrúar 2023 var hinn áfrýjaði dómur ómerktur ásamt meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og málinu vísað heim í hérað, til úrlausnar á ný. Málinu var endurúthlutað 15. febrúar sl., endurupptekið 24. febrúar og dómtekið að nýju 28. apríl sl.

Reyndi á afturvirkni refsilöggjafar

Fram kemur í dómi héraðsdóms að í málinu hafi m.a. reynt á afturvirkni refsilöggjafar og féllst dómurinn ekki á það með ákæruvaldinu að heimilt væri, eins og sakargiftum væri háttað, að refsa manninum fyrir brot í nánu sambandi, samkvæmt ákvæðum 218. gr. b almennra hegningarlaga, fyrir gildistöku þeirrar lagagreinar í apríl 2016.

Í greininni segir að hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógni lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skuli sæta fangelsi allt að sex árum. Sé brot stórfellt getur það varðað fangelsi allt að 16 árum. 

Ítrekuð brot árum saman

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi upphaflega höfðað mál á hendur manninum í lok desember 2020. M.a. fyrir stórfelld brot í nánu sambandi gagnvart þáverandi sambýliskonu sinni, sem voru framin á árunum 2009 til 2020. Hann var ákærður fyrir að hafa ítrekað, endurtekið og á alvarlegan og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt, ógnað lífi hennar, heilsu og velferð, með líkamlegu og andlegu ofbeldi. M.a. tekið hana hálstaki og ógnað henni með hnífi, sem og hótað henni og tengdum einstaklingum lífláti og líkamsmeiðingum. 

Þá var hann ákærður fyrir stórfelld brot í nánu sambandi og barnaverndarlagabrot gagnvart börnum sínum, sem voru framin á árunum 2015-2020, með því að hafa, bæði andlega og líkamlega, ítrekað, endurtekið og á alvarlegan og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt, ógnað lífi þeirra og móður þeirra, heilsu þeirra og velferð, með líkamlegu og andlegu ofbeldi. Auk þess að hafa ítrekað misboðið börnunum þannig að heilsu þeirra var hætta búin. 

Framburður konunnar trúverðugur

Héraðsdómur segir að við heildarmat á framferði mannsins, beri að líta til þess að konan hafi bæði hjá lögreglu og fyrir dómi borið með trúverðugum hætti, um að hann hafi gegnum árin oft tekið hana hálstaki, ýmist í reiðiham og/eða afbrýðisemisköstum og hann stundum brotið allt og bramlað á heimili þeirra. Þá verði ekki komist hjá því að rifja upp ósmekkleg ummæli ákærða á Facebook, en meðal þess sem maðurinn lét fljóta í samskiptum við þáverandi sambýliskonu sína í júlí og ágúst 2019, var að hún hefði skemmt líf þeirra með stanslausu framhjáhaldi. 

Fram kemur að maðurinn hafi kennt konunni meira og minna um ófarir í sambandi þeirra og sagði hana hafa kunnað að „triggera“ skap hans. Maðurinn kvaðst aldrei hafa gert neitt á hlut konunnar meðan á sambandinu stóð, það samband hefði verið ósköp venjulegt, á köflum erfitt, konan hefði þó á endanum viljað slíta því og gert það.

Upplifun mannsins í hrópandi andstöðu við lýsingu konunnar

„Þessi upplifun ákærða er einkennandi fyrir gerendur í ofbeldissamböndum og í hrópandi andstöðu við lágstemmda og trúverðuga lýsingu brotaþola, að hún hafi ávallt þurft að leita til ákærða með hvað hún mætti gera og hvað ekki, hann stjórnað ýmist beint eða óbeint hverja hún mætti umgangast, brotaþoli gert honum ljóst á árinu 2019 að hún vildi slíta sambúð þeirra, þau engu að síður búið áfram á sama heimili, þótt þau væru í sundur, brotaþoli áfram og ítrekað reynt að slíta sambandinu, ákærði aldrei virt vilja hennar og hún ekki losnað undan valdi hans fyrr en tekin var ákvörðun um nálgunarbann og brottvísun ákærða af heimili 8. mars 2020,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Á sér engar málsbætur

Héraðsdómur Reykjaness komst því að þeirri niðurstöðu, sér í lagi samkvæmt stöðugum og trúverðugum framburði konunnar hjá lögreglu og fyrir dómi, sem samrýmdist um margt frásögn mannsins hjá lögreglu og fékk stoð í rannsóknargögnum, að það væri sannað að maðurinn hefði, á tímabilinu 2017 til 2020, ítrekað ógnað lífi konunnar, heilsu og velferð með líkamlegu og andlegu ofbeldi.

„Er ákærði án skynsamlegs vafa sekur um að hafa á ofangreindu tímabili brotið gegn brotaþola í nánu sambandi með svo alvarlegum hætti að refsingu varði, samkvæmt 1. og 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga,“ segir í dómnum. 

Hann var enn fremur sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn börnunum, sem fyrr segir. 

Héraðsdómur segir að maðurinn eigi sér engar málsbætur og því verði dómurinn ekki bundinn skilorði. Og fyrir að valda barnsmóður sinni ómældum miska, var hann bótaskyldur lögum samkvæmt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert