Sturlað einelti og ofbeldi

Brynjar karl horfir á lið sitt á þriðjudag.
Brynjar karl horfir á lið sitt á þriðjudag. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Brynjar Karl Sigurðsson stýrði Aþenu upp í efstu deild kvenna í körfubolta í gærkvöld er liðið vann sigur á Tindastóli í fjórða leik liðanna í úrslitum umspils 1. deildarinnar.

Hann þjálfaði áður hjá ÍR þar sem hann vakti mikla athygli fyrir þjálfaraaðferðir sínar, sem fjallað var ítarlega um í heimildamyndinni Hækkum rána. Í einu atriði í myndinni mátti sjá unga leikmenn hans hafna verðlaunapeningum eftir sigur á Íslandsmóti, því þeir fengu ekki að spila við strákalið.

„Þetta verkefni byrjaði árið 2019 þegar stelpurnar sem ég var að þjálfa slepptu medalíunum og þegar það gerist voru þær étnar af fjölmiðlum og öllum. Ég sór eið að sækja virðinguna sem þær eiga skilið. Við fengum hins vegar hvergi inn. Að lokum fundum við íþróttahús á Kjalarnesi og ég var með sex 12-13 ára stelpur í tvö ár að spila þrír á þrjá.

Annað eins hatur í garðs lítils félags hef ég aldrei vitað. Við vorum fyrirlitin af íþróttahreyfingunni. ÍSÍ stofnaði ekki félagið, KKÍ reyndi að henda okkur úr Íslandsmótum á alls konar formgöllum og þetta var sturlað einelti og ofbeldi því það fóru einhverjar sögusagnir af stað að ég hafi sagt stelpunum að sleppa medalíunum,“ rifjaði Brynjar upp við mbl.is.

„Foreldrahóparnir skiptust í tvennt á þessum tíma og allir vissu hvað var í gangi. ÍR rak mig svo sem þjálfara því félagið réð ekki við að vera á móti stofnuninni. Ég fékk samt að halda áfram að þjálfa strákaliðið,“ sagði Brynjar, skellihló og hélt áfram:

„Þetta var mesta lágkúra sem ég hef upplifað. Ég væri til í að skipta á styttu fyrir framan ÍSÍ og þessu sæti í úrvalsdeildinni,“ sagði hann.

Nánar verður rætt við Brynjar í Morgunblaðinu sem kemur út í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert