Notuðu upp­sog­spulsur vegna mengunar við Stekkjar­bakka

Um minniháttar aðgerð var að ræða.
Um minniháttar aðgerð var að ræða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um klukkan tíu í kvöld barst slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu tilkynning vegna olíumengunar frá læk við Stekkjarbakka sem rynni í Elliðaárnar. Einn dælubíll var sendur á staðinn. 

„Þetta var minniháttar aðgerð af okkar hálfu, við settum upp uppsogspulsur sem sjúga upp í sig eiturefnin og svo var þetta bara afhent heilbrigðiseftirlitinu og Veitum,“ segir Davíð Friðjónsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is

Hann segir mengun sem þessa sennilega koma út frá hverfunum og í lækinn en magnið hafi verið það lítið að mengunin hafi ekki haft áhrif á ána. 

Heilbrigðiseftirlitið fylgir málinu eftir 

„Þetta kemur öðru hverju fyrir. Það eru ekki alltaf skýringar á þessu hvort að það séu léleg fráveitukerfin hjá okkur og þá smitar þetta svona ofan í læki og ár og annað,“ segir Davíð. 

Hann segir aðgerðir sem þessar geta verið tímafrekar en slökkviliðið var tæpa tvo tíma á vettvangi. 

„Svo tekur heilbrigðiseftirlitið við þessu og fylgir þessu eftir, hvaðan þetta kemur og hvað þetta er,“ segir Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert