Illa gengur hjá Valencia í deildinni

Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Ljósmynd/@YarisahaBasket

Hinu öfluga liði Valencia gengur ekki vel í upphafi keppnistímabilsins í ACB-deildinni spænsku í körfuknattleik og tapaði í dag fyrir Tenerife á heimavelli 89:95. 

Martin Hermannsson er á sínu fyrsta tímabili hjá Valencia sem kunnugt er. Skoraði hann 6 stig og gaf 5 stoðsendingar í leiknum. 

Valencia er í 13. sæti og hefur unnið fjóra af fyrstu tíu leikjunum. Aðalmálið er kannski að hafna á meðal átta efstu liðanna því á Spáni er átta liða úrslitakeppni um meistaratitilinn, ekki ósvipað fyrirkomulaginu á Íslandi. 

Valencia er einnig í sterkustu Evrópukeppninni, Euroleague, og ef til vill truflar það árangurinn heima fyrir. Þar er liðið í 5. sæti og hefur unnið sex af fyrstu níu leikjunum og því er talsvert misræmi á milli árangurs liðsins í þessum tveimur keppnum. 

Tryggvi Snær Hlinason fékk heldur betur verðugt verkefni í dag því Zaragoza mætti stórveldinu Barcelona á heimavelli. Barcelona hafði betur 97:85. Tryggvi skoraði 6 stig og tók 4 fráköst á þeim 12 mínútum sem hann fékk að spreyta sig. 

Zaragoza hefur ekki náð að fylgja eftir góðu tímabili síðasta vetur og er í 16. sæti með tvo sigra í fyrstu ellefu leikjunum. 

Haukur Helgi Pálsson og samherjar í Andorra fóru til Kanaríeyja í gær og unnu Gran Canaria 79:62. Skoraði Haukur 3 stig, tók 5 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Andorra hefur aðeins leikið átta leiki í deildinni og hefur unnið fjóra þeirra. Er liðið í 11. sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert