Enski boltinn

„Þetta er besti Bale sem við höfum haft allt tímabilið“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mourinho og Bale í leik gegn Manchester City á dögunum
Mourinho og Bale í leik gegn Manchester City á dögunum Tottenham Hotspur FC/Getty

Eftir erfiða byrjun í endurkomu Gareth Bale til Tottenham er velski sóknarmaðurinn hægt og bítandi að finna skotskónna aftur. José Mourinho segir að þegar Bale sé í topp standi geti hann spilað fyrir hvaða lið sem er.

Endurkoma Gareth Bale til Tottenham var það sem stuðningsmenn liðsins höfðu beðið óþreyjufullir eftir síðan hann gekk til liðs við Real Madrid árið 2013 fyrir metfé. 

Það gekk þó ekki allt upp eins og stuðningsmenn og Bale sjálfur hafði vonast eftir, en meiðsli settu strik í reikninginn, ásamt því að velski sóknarmaðurinn hafði verið úti í kuldanum hjá Zinedine Zidane, þjálfara Madrid, svo leikformið var ekki beint til staðar.

Eftir nokkurra mánaða dvöl hjá Tottenham hafði Bale aðeins byrjað tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni, og þrjú af hans fjórum mörkum komu í bikarleikjum.

Nú eru þó ummerki þess að upprisa Gareth Bale sé í uppsiglingu. Í seinustu fjórum leikjum hefur velski sóknarmaðurinn skorað fjögur mörk og lagt upp önnur þrjú. 

José Mourinho, þjálfari Tottenham fékk á sig nokkra gagnrýni fyrir lítinn spiltíma Bale eftir endurkomu hans til Tottenham, en hann hefur nú hrósað honum fyrir sína frammistöðu í seinustu leikjum.

„Það er ekki einn þjálfari í heiminum sem lætur Gareth Bale ekki spila þegar Gareth Bale er í toppstandi,“ sagði Mourinho á dögunum. „Þetta er besti Bale sem við höfum haft allt tímabilið.“

Tottenham heimsækir Fulham í ensku úrvalsdeildinni klukkan 18.00 í kvöld og verður spennandi að sjá hvort að Bale haldi áfram að sanna sig.


Tengdar fréttir

„Spurðu Real Madrid“

Jose Mourinho, stjóri Tottenham, skaut laufléttum skotum til Madrídar á blaðamannafundi Tottenham í dag er hann var spurður út í Gareth Bale.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×