Smæð gagnvart ofurkröftum náttúrunnar

Undir sáluhliði kirkjugarðsins í Vestmannaeyjum og spúandi Eldfell í bakgrunni. …
Undir sáluhliði kirkjugarðsins í Vestmannaeyjum og spúandi Eldfell í bakgrunni. Ég lifi og þér munuð lifa, orð úr guðspjalli Jóhannesar er hér letrað og í þeim orðum þótti, miðað við aðstæður, mikill boðskapur felast. Ljósmynd/Reynir Guðsteinsson

Sögu stórra viðburða er vert að minnast, halda til haga og læra af, eins og hægt er. Eldgosið á Heimaey, sem hófst fyrir réttri og sléttri hálfri öld, það er aðfaranótt 23. janúar 1973, er slíkt mál. Ótrúleg mildi má teljast að engan sakaði eða mannskaði yrði þegar gos hófst á kaldri vetrarnóttu bókstaflega á bæjarhellunni í útjaðri stórs kaupstaðar og einnar helstu verstöðvar landsins. Eyjaskeggjar lögðu á djúpið með fiskibátum og komust á öruggt land.

Minnt á varnarleysi

Þjóðin var minnt á varnarleysi manneskjunnar og smæð gagnvart ofurkröftum náttúrunnar, segir sr. Karl Sigurbjörnsson biskup sem á þessum tíma var Eyjaprestur – og þjónaði fólki á flótta sem þurfi að takast á við fordæmalausar aðstæður í lífi sínu og starfi. Í máli Karls, og fleiri sem rætt er við í sérstöku aukablaði sem fylgdi Morgunblaðinu í dag, kemur fram að tæpast þurfi að fara í grafgötur um að hulinn verndarkraftur hafi verið yfir Eyjum og fólki þar í þessum ótrúlegu náttúruhamförum. Svo fór líka að um hásumar slotaði eldgosinu en þá þegar var endurreisnarstarf komið af stað. Eyjarnar blómguðust að nýju og að því leyti tókst með samstöðu þjóðar að koma með krók á móti bragði aðsópsmikilla reginafla. Raunar tókst upp að vissu marki að hemja kraft þeirra með sjókælingu, en þannig var hraunstraumi stýrt og innsiglingunni til Eyja – sjálfri lífæðinni – bjargað.

Mynd/mbl.is

„Gosnóttin og atburðir þá voru ótrúleg upplifun og magnað sjónarspil. Því fylgdu sterkir litir og mikill hávaði og í raun var þetta of óraunverulegt til þess að vera satt,“ segir Guðrún Erlingsdóttir sem var ein þeirra 5.000 íbúa í Eyjum sem flýja þurfti heimaslóð sína þegar eldgosið hófst. Guðrún segir sögu sína í þessu blaði og það gerir einnig Pétur Guðjónsson verkfræðingur. Segir að allt hafi þeta verið mikil og þroskandi reynsla sem mótað hafi sig til lífstíðar. „Eldgosið settist dýpra í undirmeðvitund mína en ég gerði mér grein fyrir,“ segir Pétur.

Einstæður atburður

Snerpan í þeim aðgerðum sem hrundið var af stað vegna aðstæðna sem þarna komu upp í þjóðlífinu var og er hliðstæðulaus. Þar má nefna að hundruð tilbúinna timburhúsa fyrir Vestmannaeyinga á vergangi voru reist víða á suðvesturhorni landsins. Íbúar þar þurftu að aðlagast nýjum veruleika og oft voru skilyrðin ekki beint ákjósanleg, eins og viðmælendur lýsa hér. Þá var mikilvægt að sýna seiglu og horfa af bjartsýni til framtíðar.

Svo fór líka að mikill fjöldi Eyjafólks sneri aftur heim að gosi loknu, ríkara reynslu og henni oft erfiðri sem nú má ræða og nýta til sjálfseflingar. Vísindamenn og fólk í viðbragðssveitum hefur líka oft horft til hamfara þessara og numið þannig margt sem nýtist vel í núinu. Eyjagosið var og er einstæður atburður; efalaust stærsta frétt Íslandssögunnar og er þó af ýmsum merkum málum og viðburðum að taka, sé litið yfir svið aldanna.

Fjölbreytt dagskrá í Vestmannaeyjum í dag

Ýmsir viðburðir verða í Vestmannaeyjum í dag, 23. janúar, í tilefni af því að hálf öld er liðin frá upphafi eldgossins á Heimaey. Dagskráin hófst kl. 01:30 í nótt í Eldheimum, eða um svipað leyti og talið er að eldgosið hafi byrjað. Frásögnum og heimildum um nákvæma tímasetningu ber þó ekki saman. En það verður sem sagt klukkan hálf tvö sem börn í 10. bekk í Grunnskóla Vestmannaeyja hefja lestur á ýmsum fréttatextum sem og viðtöl sem hljómuðu í Ríkisútvarpinu þann 23. janúar árið 1973.

Lesturinn fer fram á heila og hálfa tímanum í tæpan sólarhring, í um það bil 10 mínútur í hvert skipti. Með þessu safna nemendur áheitum fyrir skólaferðalag sitt í vor. Minningarfundur bæjarstjórnar í Ráðhúsi hefst svo klukkan 12.

Eiginleg minningarathöfn er svo í kvöld en klukkan 18.45 er mælst til að fólk mæti við Landakirkju. Þar verður safnast saman og svo lagt af stað í blysför og göngu að Eldheimum klukkan 19. Séra Guðmundur Örn Jónsson og séra Viðar Stefánsson fara með blessunarorð við upphaf göngu. Minningarviðburður í Eldheimum hefst svo klukkan 19.30,

Þar flytja ávörp þau Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Páll Magnússon forseti bæjarstjórnar. Tónlistarflutning annast Silja Elsabet Brynjarsdóttir og Helga Bryndís Magnúsdóttir, en sú síðarnefnda er úr Eyjum, dóttir Magnúsar heitins Magnússonar bæjarstjóra og systir Páls Magnússonar sem nefndur er hér að framan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert