Bandaríkin luku leik með sigri

Samuel Hoddersen fagnar einu af fjórum mörkum sínum í dag.
Samuel Hoddersen fagnar einu af fjórum mörkum sínum í dag. AFP/Johan Nilsson

Bandaríkin unnu í dag annan sigur sinn á HM 2023 í handknattleik karla og annan sigur sinn á heimsmeistaramóti frá upphafi þegar liðið mætti Belgíu í milliriðli fjögur.

Lið Bandaríkjanna náði undirtökunum snemma leiks og komst í 6:2.

Þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik var staðan 11:7 en góður endasprettur Belga sá til þess að munurinn var tvö mörk í hálfleik, 14:12, Bandaríkjunum í vil.

Síðari hálfleikur var jafnari og raunar æsispennandi. Belgar byrjuðu frábærlega og sneru taflinu við með því að komast í 17:16 forystu.

Lengi vel eftir það var allt í járnum en eftir að Belgía komst í 21:20 svöruðu Bandaríkjamenn með fjórum mörkum í röð og komust þannig í 24:21.

Belgar skoruðu síðasta mark leiksins en það var um seinan og 24:22-sigur Bandaríkjamanna var niðurstaðan.

Markahæstir í liði Bandaríkjanna voru Ian Hueter, Aboubakar Fofana, Alexandre Chan Blanco og Samuel Hoddersen, allir með fjögur mörk.

Markahæstir hjá Belgíu voru Raphael Kotters og Simon Ooms, báðir með fjögur mörk.

Fyrir þetta heimsmeistaramót hafði bandaríska liðið tapað öllum 25 leikjum sínum á þeim sex mótum sem liðið hafði tekið þátt í.

Að þessu sinni vann liðið hins vegar tvo af sex leikjum sínum á HM og því er útlit fyrir að bandarískur handbolti sé á uppleið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert