Stórhættulegt að mæta liði eins og KA“

Sigursteinn Arndal
Sigursteinn Arndal Ljósmynd/ Kristín Hallgrímsdóttir

FH sló KA út í úrslitakeppni Olís-deildarinnar í handbolta karla í dag og er komið einu skrefi nær Íslandsmeistaratitlinum. FH vann einvígi liðanna 2:0 og í dag var liðið alltaf í forustu gegn KA og vann að lokum nokkuð örugglega 25:19.

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var að vonum ánægður með sigur sinna manna. Lið hans stóðst áhlaup KA-manna í hvorum hálfleik og gerði það sem gera þurfti.

„KA-menn voru ákveðin hindrun en við unnum alla fjóra leikina á móti þeim á tímabilinu. Við erum bara ánægðir með það. Fyrst og síðast er ég glaður að vera kominn áfram í undanúrslitin.“

Það er bara eitt markmið hjá ykkur, sem er að komast alla leið, og þá þarf maður helst að vinna alla leiki.

„Við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum að hafa fyrir hlutunum og vinna fyrir því að halda áfram. Nú förum við að einbeita okkur að næsta einvígi.“

Leikir ykkar við KA í þessari úrslitarimmu voru töluvert jafnari en í deildarkeppninni. Mér fannst KA ná að velgja ykkur undir uggum, ekki síst í fyrri leiknum, sem fór 30:28.

„Það getur verið stórhættulegt að mæta liði eins og KA, sem spilar alltaf með hjartanu. Við fórum yfir okkar mál og vorum með lausnir eftir fyrri leikinn. Eins var það í dag. KA náði að minnka í eitt mark í fyrri hálfleik en við slitum okkur frá þeim og svipað gerðist í seinni hálfleiknum. Ég er ánægður með að við vorum að bæta okkur á milli leikja og lagfæra atriði sem við komum auga á. Í úrslitakeppninni snýst þetta ekki alltaf um einhverja fagurfræði. Það þarf að mæta með ákveðin element og mér fannst við gera vel í dag.“

Nú tekur við smá frí, allavega frá leikjum. KA stefndi að sjálfsögðu á oddaleik næsta miðvikudag. Þið eruð væntanlega fegnir að losna við þann leik. Hvíld er alltaf góð með öllum æfingum og leikjum.

„Markmiðið var auðvitað að vinna þennan leik og eiga lengri tíma í undirbúning fyrir næstu lotu og ná þá betri endurheimt í leiðinni. Svona einvígi taka á og þótt við séum í góðu standi og fínu formi þá er gott að fá lengri undirbúning fyrir næsta leik“ sagði Sigursteinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert