Afrakstur átta ára vinnu – vissi ekki hvar Milwaukee var

Giannis Antetokounmpo með viðurkenninguna sem besti leikmaður úrslitakeppninnar eftir sigurinn …
Giannis Antetokounmpo með viðurkenninguna sem besti leikmaður úrslitakeppninnar eftir sigurinn á Phoenix Suns í nótt. AFP

Giannis Antetokounmpo, sem tryggði Milwaukee Bucks NBA-meistaratitilinn í körfubolta í fyrsta sinn í fimmtíu ár í nótt, var valinn í háskólavalinu fyrir átta árum af Milwaukee og hann hafði ekki hugmynd um hvar sú borg var eftir valið.

Síðasta sumar stóð hann frammi fyrir að annaðhvort gera nýjan samning við Milwaukee, eða leika út þetta leiktímabil og taka boði hvaða stórliðs sem var, en þau voru öll á eftir honum. Sá kostur virtist líta vel út, sérstaklega eftir vonbrigði Bucks í úrslitakeppninni undanfarin tvö ár. Hann vildi hins vegar endurgreiða liði Bucks fyrir að reyna hæfileika hans fyrir átta árum og byggja lið í kringum hann.

Afraksturinn af ákvörðun kappans endaði með meistaratitlinum á þriðjudag.

Giannis Antetokounmpo skorar tvö af 50 stigum sínum í sjötta …
Giannis Antetokounmpo skorar tvö af 50 stigum sínum í sjötta úrslitaleiknum í nótt. AFP

„Ég vil þakka Milwaukee-borg fyrir að hafa trú á mér. Þessi titill þýðir allt fyrir mig þar sem ég vildi með honum þakka liðinu og borginni hér fyrir að hafa trú á mér. Ég hef verið hér í átta ár og samherjar mínir hafa ýtt við mér hvern dag að komast á þennan tind deildarinnar,“ sagði kappinn við fréttaþul ESPN-sjónvarpsstöðvarinnar þegar verðlaunastyttan var afhent.

Með leik sínum í þessum úrslitum er kappinn nú í sjaldgæfum hópi. Hann jafnaði met Bob Pettit frá 1958 með því að skora fimmtíu stig í leik sem gerir út um meistaratitilinn. Hann er nú einnig kominn í hóp Michael Jordan og Hakeem Oljuwon sem einu leikmennirnir sem vinna titilinn, eru kosnir leikmenn lokaúrslitanna og kosnir varnarleikmenn ársins, allt á sama keppnistímabilinu. Ekki slæmur félagsskapur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert