8. umferð: Met Heimis jafnað, KR slapp, Kristinn sautjándi

Kristinn Jónsson lék sinn 250. leik í deildinni.
Kristinn Jónsson lék sinn 250. leik í deildinni. mbl.is/Óttar

Markamet Víkings var jafnað, KR-ingar sluppu við að setja tvö óæskileg met og tveir þeirra náðu stórum áföngum.

Þetta var meðal þess sem gerðist í áttundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta sem lauk í gærkvöld.

Fimm leikja taphrinu KR-inga lauk með sigri á Fram í Úlfarsárdal, 2:1, í gærkvöld. Atli Sigurjónsson skoraði fyrsta mark liðsins í sex leikjum og í samtals 470 mínútur og kom í veg fyrir að félagsmetið frá árunum 1976-77 yrði slegið. Þá skoraði KR ekki í 516 mínútur í deildinni. Sigurinn þýðir jafnframt að verstu taphrinur félagsins í efstu deild eru áfram frá árunum 1977 og 1971 en á hvoru ári fyrir sig tapaði KR sex leikjum í röð. 

Kristinn Jónsson, vinstri bakvörður KR, lék sinn 250. leik í efstu deild gegn Fram. Hann er sautjándi leikmaðurinn í sögu deildarinnar sem nær þessum leikjafjölda. Kristinn lék 148 leiki fyrir Breiðablik og hefur nú spilað 102 fyrir KR.

Kennie Chopart er fjórði erlendi leikmaðurinn til að spila 200 …
Kennie Chopart er fjórði erlendi leikmaðurinn til að spila 200 leiki í deildinni. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Kennie Chopart, hægri bakvörður og fyrirliði KR, lék sinn 200. leik í deildinni. Þar af eru 150 fyrir KR og hann er orðinn tíundi leikjahæsti leikmaður félagsins í deildinni frá upphafi. Chopart lék áður 11 leiki fyrir Fjölni og 39 fyrir Stjörnuna. Hann er fjórði erlendi leikmaðurinn sem spilar 200 leiki í deildinni, á eftir Steven Lennon (211), Ian Jeffs (207) og Paul McShane (207).

Steven Lennon fagnar sínu 101. marki í deildinni í leiknum …
Steven Lennon fagnar sínu 101. marki í deildinni í leiknum við ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Steven Lennon skoraði annað mark FH í sigri í Vestmannaeyjum í gærkvöld, 3:2, og það er hans 101. mark í efstu deild. Hann jafnaði þar með við Guðmund Steinsson, sem lék með Fram og Víkingi, og þeir eru nú jafnir í fjórða sæti yfir mestu markaskorara deildarinnar frá upphafi.

Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkings, jafnaði markamet Heimis Karlssonar fyrir félagið þegar hann skoraði seinna markið í sigri liðsins á HK, 2:1, í Kórnum í fyrrakvöld. Þetta var 37. mark Danans í deildinni fyrir Víking, í 107 leikjum, en Heimir skoraði 37 mörk í 116 leikjum fyrir Víking í deildinni á árunum 1978 til 1984. Þá er Nikolaj orðinn tíundi leikjahæsti Víkingurinn í deildinni frá upphafi með 107 leiki.

Nikolaj Hansen jafnaði markametið hjá Víkingi.
Nikolaj Hansen jafnaði markametið hjá Víkingi. mbl.is/Óttar Geirsson

Víkingar fengu á sig sitt annað mark á tímabilinu þegar Eyþór Aron Wöhler úr HK skoraði hjá Ingvari Jónssyni í sigri Víkinga í Kórnum, 2:1. Víkingur er þriðja liðið í sögu deildarinnar sem fær aðeins á sig tvö mörk í fyrstu átta umferðunum. Skagamenn voru með markatöluna 16:2 eftir átta umferðir árið 1995 og Framarar voru með markatöluna 17:2, nákvæmlega eins og Víkingar nú, eftir átta umferðir árið 1988.

Framarar með Jón Þóri Sveinsson, núverandi þjálfara sinn, í hjarta varnarinnar og Birki Kristinsson í markinu gerðu hins vegar enn betur, héldu markinu hreinu í næstu fimm leikjum og voru með markatöluna 27:2 eftir 13 umferðir.

Víkingar héldu áfram að bæta sína bestu byrjun í deildinni frá upphafi með því að vinna áttunda leikinn í jafnmörgum umferðum.

Gísli Eyjólfsson skoraði stórglæsilegt mark fyrir Breiðablik gegn KA.
Gísli Eyjólfsson skoraði stórglæsilegt mark fyrir Breiðablik gegn KA. mbl.is/Óttar Geirsson

Gísli Eyjólfsson er orðinn sjötti markahæsti leikmaður Breiðabliks í deildinni frá upphafi eftir að hafa skorað seinna markið í sigrinum á KA, 2:0, á Kópavogsvelli á sunnudaginn. Þetta var 29. mark Gísla og hann fór fram úr Alfreð Finnbogasyni sem skoraði 28 mörk fyrir Blikana.

Hilmar Árni Halldórsson er orðinn fjórði leikjahæstur Stjörnumanna í efstu deild frá upphafi. Hann lék sinn 132. leik fyrir félagið í jafnteflisleiknum gegn Fylki í gærkvöld, 2:2, og deilir nú fjórða sætinu með Heiðari Ægissyni.

Hornfirðingar skoruðu bæði mörk ÍBV í ósigrinum gegn FH, 2:3, þeir Hermann Þór Ragnarsson og Alex Freyr Hilmarsson.

Pétur Bjarnason skoraði sitt fyrsta mark í deildinni og Hilmar …
Pétur Bjarnason skoraði sitt fyrsta mark í deildinni og Hilmar Árni Halldórsson er orðinn fjórði leikjahæstur hjá Stjörnunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísfirðingar sáu um fyrra mark Fylkis í jafnteflinu við Stjörnuna, 2:2. Pétur Bjarnason skoraði þar sitt fyrsta mark í efstu deild eftir sendingu frá Þórði Gunnari Hafþórssyni. Þeir voru samherjar hjá Vestra árin 2016 til 2019.

Úrslit­in í 8. um­ferð:
Breiðablik - KA 2:0
HK - Víkingur R. 1:2
Valur - Keflavík 0:0
ÍBV - FH 2:3
Stjarnan - Fylkir 2:2
Fram - KR 1:2

Marka­hæst­ir í deild­inni:

6 Stefán Ingi Sig­urðar­son, Breiðabliki
5 Adam Ægir Páls­son, Val
5 Gísli Eyj­ólfs­son, Breiðabliki
5 Örvar Eggerts­son, HK
4 Andri Rún­ar Bjarna­son, Val
4 Kjart­an Henry Finn­boga­son, FH
4 Guðmund­ur Magnús­son, Fram
4 Ísak Andri Sig­ur­geirs­son, Stjörn­unni
4 Ni­kolaj Han­sen, Vík­ingi
4 Tryggvi Hrafn Har­alds­son, Val
3 Aron Jó­hanns­son, Val
3 Ásgeir Sig­ur­geirs­son, KA
3 Bene­dikt Daríus Garðars­son, Fylki
3 Birn­ir Snær Inga­son, Vík­ingi
3 Guðmund­ur Bald­vin Nökkva­son, Stjörn­unni
3 Höskuldur Gunnlaugsson, Breiðabliki
3 Ólaf­ur Karl Fin­sen, Fylki

Næstu leik­ir:
25.5. KA - Víkingur R. (15.umferð)
25.5. Breiðablik - Valur (13.umferð)
28.5. FH - HK
28.5. Fylkir - ÍBV
28.5. KR - Stjarnan
29.5. KA - Fram
29.5. Víkingur R. - Valur
29.5. Keflavík - Breiðablik

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert