Tókum stór og góð skref í kvöld

Hermann Hreiðarsson, þjálfari Eyjamanna, var ánægður með frammistöðu síns liðs …
Hermann Hreiðarsson, þjálfari Eyjamanna, var ánægður með frammistöðu síns liðs í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, var mjög ánægður með leik sinna manna í kvöld þó að úrslitin hafi ekki fallið með Eyjamönnum þegar þeir gerðu 3:3 jafntefli við Framara í sögulegum opnunarleik á hinum nýja heimavelli Fram í Úlfarsárdal.

„Okkur hefur gengið brösuglega að skora mörk upp á síðkastið, þannig að í kvöld voru stórar framfarir og þrjú mörk, og fullt af færum.“ sagði Hermann og bætti við kíminn á svip að mögulega hefði leikurinn verið fullopinn.

„Þetta var örugglega skemmtilegur leikur fyrir hlutlausa aðdáendur, en það er ekki alltaf jafnskemmtilegt fyrir þjálfarana,“ sagði Hermann. „Það var augljóst að hér voru tvö lið sem sóttu til sigurs, og voru til í að „gambla“ aðeins til að koma sér í stöður og leikurinn einkenndist svolítið af því. Við tókum stór skref í kvöld og góð skref. Við þurfum aðeins að slípa þetta, og þá vitum við að við fáum alltaf okkar færi.“

Úrslitin þýða þó að Eyjamenn sitja enn í neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig, jafnmörg og Leiknir en með lakara markahlutfall og einum leik meira. Hermann segir þó að Eyjamenn séu ekki farnir að hengja haus yfir stöðunni, enda hafi spilamennskan sýnt að þeir eigi mikið inni.

„Við höfum ekki gert það í neinum einasta leik í sumar, og alveg fram á síðustu mínútu höfum ekki gefist upp. Við vitum að það er mikill andi og hungir og við erum mjög gráðugir í sigur,“ segir Hermann og telur að stigin hljóti að fara að koma með áframhaldandi spilamennsku. „Við höfum verið inni í öllum leikjunum, þetta hefur verið aðeins stöngin út,“ segir Hermann.

Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, er nú kominn í þjálfarateymi Eyjamanna, og segir Hermann það vera mikinn ávinning fyrir Eyjamenn, bæði þá í teyminu og strákana í liðinu. „Það gefur rosalega mikið að hafa svona reynslubolta með, bæði fyrir okkur í teyminu og strákana í liðinu. Við vitum að þetta bætir okkur á öllum vígstöðvum.“

Skemmtilegt að fá að taka þátt í þessum leik

„Ég vil byrja á því að óska Frömurum til hamingju með frábæra aðstöðu. Þetta er geggjaður völlur, geggjað vallarstæði og stúka. Það myndaðist góð stemmning hérna, og bara til hamingju Framarar“ segir Andri Rúnar Bjarnason, framherji Eyjamanna, sem skoraði tvö mörk Eyjamanna í kvöld og lék þannig stórt hlutverk í þessum opnunarleik Framara á nýja heimavellinum.

Hann tekur undir með blaðamanni að það hafi verið mjög gaman að heyra í heimamönnum, sem hafi greinilega lagst á eitt við að gera nýja heimavöllinn að vígi með stuðningi sínum við Framara. „Já, það var skemmtilegt að fá að taka þátt í þessu, og ekki oft sem skapast svona góð stemmning á leikjum á Íslandi,“ segir Andri Rúnar.

Andri Rúnar sagði það mikinn heiður að taka þátt í …
Andri Rúnar sagði það mikinn heiður að taka þátt í þessum opnunarleik Framara. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Hann segir að það sé mikil leikgleði í liðinu þrátt fyrir að stigin hafi látið á sér standa. „Við höfum rætt það strákarnir í liðinu að það er ekkert að frammistöðuna þegar á heildina er litið. Þetta er örsmáir hlutir sem við þurfum að laga til þess að snúa leiknum í sigur. Við erum að reyna að bæta þetta lítil hænuskref í einu,“ segir Andri Rúnar og bætir við að ef frammistaðan helst áfram góð hljóti Eyjamenn bráðum að fara að snúa blaðinu við. „Það getur ekki annað verið en að stigin fari að koma.“

Andri Rúnar tekur að lokum undir orð Hermanns um vægi þess að fá Heimi Hallgrímsson í þjálfarateymið. „Að sjálfsögðu, hann þekkir mjög vel til í félaginu, þekkir marga af leikmönnunum, hefur þjálfað þá áður og hefur gríðarlega reynslu í þessu. Það er algjör heiður að fá hann til að koma og miðla af visku sinni inn í liðið, og við ætlum að taka það með okkur inn í þetta mót,“ segir Andri Rúnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert