HK og Grindavík með sína fyrstu sigra

Ásgeir Marteinsson skoraði fyrsta mark HK í kvöld.
Ásgeir Marteinsson skoraði fyrsta mark HK í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

HK og Grindavík innbyrtu í kvöld sína fyrstu sigra í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, með sigrum á nýliðunum tveimur, KV og Þrótti úr Vogum.

HK sótti KV heim á gervigrasvöll KR-inga, sem í gær fékk nafnið Auto Park. HK-ingar skoruðu tvisvar á fyrstu tíu mínútunum, fyrst Ásgeir Marteinsson beint úr aukaspyrnu og síðan Hassan Jalloh.

Undir lokin hleypti Patryk Hryniewicki lífi í vonir KV með marki, 2:1, en Bjarni Páll Runólfsson svaraði strax fyrir HK og innsiglaði sigur Kópavogsliðsins, 3:1.

Grindvíkingar fengu granna sína Þróttara úr Vogum í heimsókn og félögin mættust þar með í fyrsta sinn í deildakeppni. Dagur Ingi Hammer kom Grindavík yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks og Kairo Edwards-John bætti við marki um miðan síðari hálfleik, 2:0. Dagur var aftur á ferð og skoraði sitt annað mark í uppbótartímanum, 3:0.

Grindvíkingar eru þá komnir með fjögur stig og HK þrjú stig en bæði KV og Þróttur eru án stiga eftir tvo leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert