15 milljóna sekt fyrir skattalagabrot

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í gær karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum. Maðurinn var ennfremur dæmdur til að greiða 15,2 milljónir kr. í sekt til ríkissjóðs. 

Hann var sakfelldur fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að standa ríkissjóði skil á virðisaukaskatti við rekstur einkahlutafélags og að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum á lögmæltum tíma. Þá var ákærði sakfelldur fyrir meiriháttar brot á bókhaldslögum. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms að maðurinn, Teitur Guðmundsson, hafi verið í desember 2020 ákærður fyrir meiriháttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum og fyrir peningaþvætti sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins Sitrus, sem er nú afskráð. Hann var m.a. sakaður um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum félagins á lögmæltum tíma og ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti. 

Þá var hann ákærður fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald í samræmi við lög. Jafnframt fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað einkahlutafélaginu ávinnings af sínu broti. 

Teitur krafðist þess að ákæruliðurinn er varðaði peningaþvætti yrði vísað frá og til vara sýknu af kröfum ákæruvaldsins. 

Fram kemur í dómnum að skattrannsóknarstjóri hafi hafið formlega rannsókn á skilum afdreginnar staðgreiðslu og virðisaukaskatts félagsins í mars 2017 en félagið var úrskurðað gjaldþrota í október 2015. Skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til héraðssaksóknara í febrúar 2018 og var Teitur yfirheyrður í desember 2019 vegna málsins. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að það sé óumdeilt að engum virðisaukaskattskýrslum hafi verið skilað vegna Sitrus allan þann tíma sem félagið var í rekstri auk þess sem leiðréttingarskýrslum var ekki skilað. Teitur gerði hvorki við rannsókn málsins né fyrir dómi athugasemdir við vanframtalda virðisaukaskattskylda veltu félagsins sem fjárhæð skilaskylds virðisaukaskatts á eindaga miðast við og ákæra byggir á.

Héraðsdómur segir, að vegna stöðu Teits sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanns félagsins hvíldi á honum rík skylda til að sjá til þess og tryggja að staðin væru skil á skýrslum um virðisaukaskatt og tryggja auk þess að ríkissjóði yrðu staðin skil á innheimtum virðisaukaskatti. Hann braut því gegn 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt og taldist  brot hans stórfellt.

Héraðsdómur sakfelldi hann ennfremur fyrir annan ákæruliðinn og sagði einnig að brotið væri stórfellt. 

Hvað ákæru um peningaþvætti varðar, þá segir héraðsdómur að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sýna fram á að um viðbótarathafnir hafi verið að ræða af hálfu ákærða, hvorki í eigin þágu eða þágu félagsins. Þar af leiðandi verði frumbrot hans af þeim sökum talið tæma sök gagnvart ákvæði 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert