Góður gluggi til að sýna sig

Viktor Örlygur Andrason í leik með U21 árs landsliðinu.
Viktor Örlygur Andrason í leik með U21 árs landsliðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viktor Örlygur Andrason, leikmaður Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík, lék sína fyrstu A-landsleiki í fótbolta er Ísland mætti Úganda á þriðjudag og Suður-Kóreu í dag. Íslenska liðið gerði 1:1-jafntefli við Úganda en fékk 1:5-skell gegn Suður-Kóreu.

„Þeir voru mjög góðir og spiluðu vel. Færslurnar þeirra voru allar réttar og við áttum erfitt með þá í vörninni. Við héldum svo boltanum illa í fyrri en það lagaði aðeins í seinni og við spiluðum uppspilið betur og tókum fleiri réttar ákvarðanir í varnarleiknum,“ sagði Viktor Örlygur um leikinn í dag.

Hann var ánægður með að fá að spreyta sig í landsliðinu í fyrsta skipti og gegn sterkum liðum. „Þetta var mjög góð reynsla og skemmtilegt að prófa sig á þessu stigi. Það var mikill heiður að fá tækifærið. Það er góð tilbreyting frá félagsliðinu og meira um taktískar pælingar og mikil gæði. Þetta hefur verið mjög gaman,“ sagði miðjumaðurinn.

Viktor hefur leikið með Víkingi allan ferilinn, en hann hefur áhuga á að fara út í atvinnumennsku. „Að sjálfsögðu. Þetta var góður gluggi til að sýna sig og máta sig við leikmenn sem eru að spila á Norðurlöndum og í betri deild en heima. Það er á plani yfir næsta árið,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert