Good Good hefur ráðið Belindu Navi í starf markaðsstjóra með aðsetur í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík. Belinda Navi flutti búferlum frá Los Angeles til Reykjavíkur til að starfa fyrir Good Good og hefur þegar hafið störf. Greint er frá ráðningu hennar í fréttatilkynningu.

Good Good er íslenskt sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á matvælum án viðbætts sykurs.  Vöruframboðið samanstendur m.a. af sultum, hnetu- og súkkulaðismyrju, sætuefnum, stevíu-dropum, sýrópi og keto-börum.

Belinda Navi er með MBA gráðu frá INSEAD og B.A bókmenntagráðu frá Brown University. Hún starfaði áður sem markaðsráðgjafi fyrir viðskiptavini á borð við Amobee Inc, Belkin International og SunAsia Energy Inc og sem markaðs- og þróunarstjóri fyrir WePlay Networks.

„Við erum virkilega ánægð að fá Belindu til að stýra markaðsstarfi okkar og sókn Good Good inn á alþjóðlega markaði. Ráðning hennar mun styrkja markaðsstarf okkar á heimsvísu, sér í lagi í Norður Ameríku þar sem við erum þegar í mikilli sókn. Belinda er með yfirgripsmikla reynslu sem mun nýtast Good Good vel við vörumerkjaþróun, markaðsrannsóknir og við að greina ný markaðstækifæri," segir Garðar Stefánsson, framkvæmdastjóri Good Good í fréttatilkynningu.