Enski boltinn

Manchester United í neðsta sæti í „deild“ stóru liðanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur ekkert gengið hjá Bruno Fernandes og félögum í liði Manchester United í leikjum á móti hinum stóru liðunum í ensku úrvalsdeildinni.
Það hefur ekkert gengið hjá Bruno Fernandes og félögum í liði Manchester United í leikjum á móti hinum stóru liðunum í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Andy Rain

Manchester United hefur náð slakasta árangrinum í innbyrðis leikjum stóru sex liðanna í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Manchester United gerði markalaust jafntefli á móti Chelsea um helgina og var það fjórði leikur liðsins í röð á móti einu af stóru sex liðum deildarinnar sem endar með markalausu jafntefli.

Stóru liðin sex í ensku úrvalsdeildinni eru í stafrófsröð Arsenal, Chelsea, Liverpool, Manchester City, Manchester United og Tottenham Hotspur.

ESPN tók saman árangur í innbyrðis leikjum þessara liða og bjó til „topp sex deildina“. Það er ekki falleg sjón fyrir stuðningsmenn Manchester United.

Ole Gunnar Solskjær hefur ekki náð að stýra Manchester United liðinu til sigurs í átta síðustu leikjum á móti einu af þessu stóru liðum, sjö á þessu tímabili og þeim síðasta á tímabilinu í fyrra.

Það sem meira er að United hefur ekki skorað nema eitt mark í þessum sjö leikjum á þessari leiktíð og það mark kom úr vítaspyrnu og í 1-6 stórtapi á móti Tottenham.

Manchester United hefur ekki unnið eitt af stóru liðum ensku úrvalsdeildarinnar síðan í mars á síðasta ári þegar liðið vann 2-0 sigur á Manchester City á Old Trafford þar sem að þeir Anthony Martial og Scott McTominay skoruðu mörkin.

Manchester City hefur náð í sautján stig í átta leikjum og Liverpool er þremur stigum á eftir en hefur einnig leikið einum leik færra. Liverpool gæti því náð City á toppi þessa lista með sigri á Chelsea í vikunni.

Stig og markatala í „topp sex deildinni“:

  • 1. Manchester City 17 stig (+12)
  • 2. Liverpool 14 stig (+4)
  • 3. Tottenham 10 stig (+2)
  • 4. Arsenal 7 stig (-3)
  • 5. Chelsea 6 stig (-5)
  • 6. Manchester United 5 stig (-6)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×