Nýtt Alzheimer-lyf eftir 20 ára lyfjaþurrð

Er þetta fyrsta lyfið sem ræðst á sjálfan undirliggjandi sjúkdóminn …
Er þetta fyrsta lyfið sem ræðst á sjálfan undirliggjandi sjúkdóminn Alzheimer. Ljósmynd/Thinkstock

Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefur samþykkt nýtt lyf við minnissjúkdómnum Alzheimer. Er þetta í fyrsta skipti i 20 ár sem nýtt lyf er samþykkt við sjúkdómnum og er það hið fyrsta sem beinist gegn undirliggjandi sjúkdómnum sjálfum.

Framleiðandi lyfsins er lyfjafyrirtækið Biogen. Hafa þeir einnig sótt um leyfi fyrir lyfinu hjá Evrópusambandinu og í Bretlandi. Ákvörðun Lyfjaeftirlits Bandaríkjanna setur ákveðna pressu á önnur lönd að fylgja fordæmi þeirra og gera lyfið aðgengilegt sjúklingum utan Bandaríkjanna.

Aduhelm

Lyfið sem um ræðir heitir Aduhelm (e.þ.s. adacanumab). Virkni þess beinist gegn uppbyggingu amyloid prótín skánar sem hefur verið talin orsakavaldur Alzheimer sjúkdómsins. Hingað til hafa lyf við sjúkdómnum haft þann tilgang að taka skánina í burtu þegar hún er komin. Þannig á þetta lyf að virka með einskonar fyrirbyggjandi hætti. 

Til þess að Aduhelm virki þarf samt að byrja að taka það snemma í ferlinu og því mikilvægt að fólk leiti fyrr til læknis en nú en hingað til hefur ekki verið neitt úrræði við minnisleysi á frumstigi. Greining á Alzheimer sjúkdómnum fer fram með PET skanna sem er kostnaðarsamt fyrir heilbrigðisstofnanir og því ljóst að breytingin sem lyfið kann að hafa í för með sér getur orðið ansi umfangsmikil.

Hafnað í nóvember

Aduhelm hefur verið umdeilt á meðal sérfræðinga en í nóvember var leyfi fyrir því hafnað á þeim grundvelli að virkni lyfsins lægi ekki nægilega fyrir. Einhverjir óttuðust að ef lyf með takmarkaða virkni væri samþykkt og hlyti víðtæka viðurkenningu, yrði það til þess að letja aðra í vinnu sinni við að finna betri lyf. Í dag eru yfir 150 tilraunastofur að einbeita sér sérstaklega að þessu verkefni.

Tilraunir með Aduhelm voru tvívegis stöðvaðar í mars 2019 þar sem lyfið var ekki talið hafa tilætluð áhrif. Biogen gaf á þeim tíma út yfirlýsingu þess efnis að lyfið væri ólíklegt til að bæta hugsun og minni fólks.

Seinna þegar niðurstöður tilraunanna voru endurskoðaðar, mátti sjá að ef lyfið var tekið í nægilega langan tíma og nægilega stórum skömmtum hægði það á hrörnun minnisins, hugsunar og hæfni til almennrar þátttöku í samfélaginu. Þá var hafist handa við þróun lyfsins á ný og nú uppfyllir það kröfur Lyfjaeftirlits Bandaríkjanna, en leyfið var veitt í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert