Plaio, sem þróar gagn- og sjálfvirkar framleiðslustýringalausnir sem byggja á gervigreind fyrir lyfjaframleiðslu, hefur ráðið til sín þrjá nýja starfsmenn í hugbúnaðarþróun til að styðja við vöxt fyrirtækisins.

Sara Árnadóttir er nýr leiðtogi hugbúnaðarþróunar hjá Plaio. Undanfarin ár hefur Sara starfað við framendaforritun hjá Hugsmiðjunni og Code North, hjá Síminn Pay við bæði framenda- og bakendaforritun og sinnt aðstoðarkennslu hjá Háskólanum í Reykjavík. Sara verður hópstjóri í þróun og framleiðslu á sjálfvirknivæðingu hugbúnaðarlausnar Plaio. Hún er með M.Sc. og B.Sc. gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og lokaverkefni hennar í M.Sc. náminu var unnið í samstarfi við Plaio.

Eggert Gíslason er sérfræðingur í hugbúnaðarþróun, en hann hefur 25 ára reynslu af hugbúnaðargerð fyrir íslenskan fjármálamarkað. Eggert kemur frá five°degrees þar sem hann hefur starfað allt frá kaupum félagsins á Libra ehf. þar sem hann leiddi veflausnir félagsins frá árinu 2010. Áður vann Eggert við smíði veflausna fyrir Origo og TM Software og þeirra viðskiptavini. Eggert er forritari og framendahönnuður en hefur jafnhliða starfað sem hópstjóri og arkitekt að umfangsmiklum vefverkefnum fyrir fjölbreytta viðskiptavini, mest á fjármálasviðinu.

Andri Sveinn Ingólfsson er nýr sérfræðingur í hugbúnaðarþróun hjá Plaio. Andri Sveinn er að ljúka M.Sc. námi í rekstrarverkfræði frá HR en hann hefur lokið B.Sc. námi bæði í tölvunarfræði og rekstrarverkfræði. Andri Sveinn vann lokaverkefni sitt í M.Sc. náminu í samstarfi við Plaio.

„Undanfarin misseri hafa verið virkilega spennandi hjá okkur í Plaio. Teymið er að stækka og viðskiptavinahópurinn sömuleiðis. Við sjáum fyrir mikinn vöxt á næstu mánuðum og erum ánægð með að fá þessa reynslumiklu sérfræðinga til liðs við okkur,“ segir Jóhann Guðbjargarson, framkvæmdastjóri Plaio.