Erlent

Flack óttaðist réttarhöld og umfjöllun

Samúel Karl Ólason skrifar
Caroline Flack.
Caroline Flack. Getty/Keith Mayhew

Caroline Flack, þáttastjórnandi Love Island, svipti sigi lífi því hún átti von á því að verða ákærð og vissi að hún yrði fyrir gífurlegum þunga frá bresku pressunni. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem opinberaðar voru fyrir dómi í Bretlandi í dag. Móðir Flack segir lögregluna hafa farið á eftir dóttur sinni af of mikilli hörku vegna frægðar hennar.

Flack svipti sig lífi í febrúar, skömmu áður en hún átti að mæta í dómsal þar sem hún hafði verið ákærð fyrir líkamsárás.

Hún var ákærð fyrir að hafa ráðist á kærasta sinn með því að slá hann í höfuðið með síma þar sem hann lá sofandi. Sá, tenniskappinn Lewis Burton, var alla tíð mótfallinn því að hún yrði ákærð.

Flack var hvað þekktust fyrir að stýra hinum geysivinsælu þáttum, Love Island, en hún hafði áður notið mikilla vinsælda sem þáttastjórnandi hinna ýmsu þátta, til að mynda Big Brother‘s Big Mouth, I‘m a Celebrity… Get Me Out of Here NOW! og X Factor.

Þá vakti hún heimsathygli þegar hún átti í ástarsambandi við Harry Styles þegar hann var sautján ára gamall en Flack var fjórtán árum eldri.

Við kynningu niðurstöðu rannsóknar sinnar sagði rannsakandinn Mary Hassell að Flack hafi átt við geðræn vandamál að stríða í gegnum tíðina. Þau vandamál hafi færst í aukana með aukinni frægð hennar. Það hafi reynst henni mjög erfitt að líf hennar væri sífellt til umfjöllunar í bresku pressunni og hún hafi staðið frammi fyrir því að missa starf sem hún elskaði vegna áðurnefndrar ákæru.

Í dómsal í dag ræddi móðir Flack við lögregluþjóninn sem lagði til að Flack yrði ákærð. Upprunalega stóð til að ávíta Flack en því var breytt að beiðni lögreglunnar. Christine Flack sagði að ef dóttir sín hefði ekki verið fræg hefði hún aldrei verið ákærð.

„Þú ættir að skammast þín. Það er ekkert sem við getum gert til að fá Caroline til baka. Ég vona að þú sjáir eftir þessu. Hún var ekki ofbeldiskona,“ sagði Christine Flack samkvæmt frétt Sky News.

Fyrir dómi neitaði lögregluþjónninn því að frægð Flack hafi haft áhrif á ákvörðun lögreglunnar. Hún sagðist hafa beðið um ákvörðunin um ávítunina yrði endurskoðuð að beiðni lögregluþjónanna sem að málinu komu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×